„Thorsil hafði eitt ár frá uppsögn til að ganga frá sínum málum. Það var ekki gert og því var uppsögn lóðaleigusamningsins haldið til streitu.“
Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, um nýlega samþykkt stjórnar Reykjaneshafnar þar sem segir að litið sé svo á að lóðar- og hafnarsamningur við Thorsil ehf. sé úr gildi fallinn. Thorsil hafði gert samning um lóð við Berghólabraut á iðnaðarsvæðinu í Helguvík þar sem fyrirtækið hugðist reisa kísilver.
Í janúar árið 2019 hvatti meirihluti bæjarstjórnar bæði Arion banka og Thorsil að falla frá öllum áformum um uppbyggingu og rekstur kísilmálmverksmiðja í Helguvík og til að taka frekar þátt í annarri atvinnuuppbyggingu í sátt við fólkið í sveitarfélaginu og umhverfið.
Reykjaneshöfn og Thorsil ehf. undirrituðu í apríl árið 2014 lóðar- og hafnarsamning. Á fundi stjórnar Reykjaneshafnar í maí í fyrra var samþykkt að segja samningnum upp þar sem fyrirtækið hefði vanefnt samningsskyldur sínar. Í bókun stjórnarinnar var rifjað upp að með uppbyggingu kísilversins hafi átt að skapast „vel launuð störf“ og umsvif við höfnina ennfremur að aukast. Mörg ár séu liðin frá undirskrift en „ekkert bólar á fyrirhugaðri starfsemi“.
Fram kom auk þess í bókuninni að fyrirliggjandi væru samningsviðaukar aðila þar sem kveðið væri á um greiðslufyrirkomulag þeirra gjalda sem inna átti af hendi á grundvelli samningsins. „Í ljósi þess að greiðslur hafa ekki borist lítur stjórn Reykjaneshafnar svo á að Thorsil ehf. hafi vanefnt samningsskyldur sínar. Á tímum óvissu og atvinnubrests er þörf á allri uppbyggingu til að vega upp á móti óheillavænlegri þróun. Stjórn Reykjaneshafnar telur óforsvaranlegt að bíða endalaust í óvissu á meðan nýir aðilar óska eftir samræðum um framtíðaruppbyggingu.“
Ákveðið var á þessum fundi að segja upp samningnum en samkvæmt ákvæði í honum tæki uppsögnin gildi að ári en hefði engin áhrif ef fyrirtækið efndi samningsskyldur sínar á uppsagnarfrestinum.
Tilkynning um uppsögnina var send forsvarsmönnum Thorsil 20. maí í fyrra. „Þar sem liðið er rúmt ár frá því að uppsögn samnings var tilkynnt og engin viðbrögð hafa borist frá Thorsil ehf. varðandi uppsögnina og lítur stjórn Reykjaneshafnar svo á að ofangreindur lóðar- og hafnarsamningur sé úr gildi fallinn,“ segir samþykkt stjórnar hafnarinnar frá því í lok júní í ár.
Samkvæmt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gaf út árið 2017 hefur fyrirtækið heimild til að framleiða allt að 110 þúsund tonn á ári af hrákísli, allt að 55 þúsund tonnum af kísildufti og 9 þúsund tonnum af kísilgjalli í fjórum ljósbogaofnum. Árið 2015 sömdu forsvarsmenn þess við annars vegar Landsvirkjun um rafmagn til starfseminnar og hins vegar Landsnets um raforkuflutninga.
Vilja fá að kjósa um Helguvík
Íbúar og stjórnvöld í Reykjanesbæ eru brennd af reynslunni af kísilveri United Silicon, sem starfaði á tíu mánaða tímabili á árunum 2016 og 2017. Verið, sem stóð nærri byggð rétt eins og ver Thorsil myndi gera, var frá upphafi gagnrýnt fyrir fjölmarga þætti. Byggingarnar voru hærri og meiri en skipulag gerði ráð fyrir og það angraði verulega fólk með lykt og annarri mengun sem hafði áhrif á heilsu margra. Er slökkt var á eina ljósbogaofni kísilversins vörpuðu því margir öndinni léttar.
Íbúasamtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík voru ötul í baráttu sinni gegn því að verið yrði endurræst sem og frekari starfsemi, m.a. Thorsil, á svæðinu. Í árslok 2018 höfðu þau safnað undirskriftum um 2.700 íbúa sem kröfðust þess að fá að kjósa um hvort verksmiðjurnar fengju að hefja starfsemi.
Kjartan Már bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um framhald málsins að ekki hafi verið gert ráð fyrir tekjum tengdum Thorsil ehf. í fjárhagsáætlunum Reykjaneshafnar síðastliðin tvö ár, hvorki til skemmri eða lengri tíma.
Í ársreikningi Reykjaneshafnar fyrir árið 2019 segir að í fjárhagsáætlun ársins hafi verið gert ráð fyrir tekjum í gegnum lóðargjöld í tengslum við að uppbygging á kísilveri Thorsil hæfist í Helguvík. „Þau áform gengu ekki eftir og liggur ekki fyrir að svo stöddu hvort og hvenær af þeim áformum verður,“ stóð í samantekt stjórnar og hafnarstjóra.
Hvað framhaldið í Helguvík varðar segir Kjartan Már Reykjanesbæ vera að skoða ýmsa möguleika fyrir sveitarfélagið um framtíðaruppbyggingu á svæðinu.