Francois Hollande, forseti Frakklands, telur ómöglegt að ná samstöðu um bindandi loftslagssamkomulag á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP 21) í París í desember nema iðnvæddar þjóðir greiði árlega 100 milljarða evra til þróunarlanda, andvirði 14.515 milljarða íslenskra króna.
„Ef við ætlum að ná árangri í París þurfum ekki aðeins að ráðast í pólitískar skuldbindingar heldur einnig fjárhagslegar,“ sagði Hollande í ræðu í París á fimmtudag. Ef þróunarlönd eiga að komast hjá því að iðnvæðast eins og Vesturlönd og hefja notkun endurnýtanlega orkugjafa verði iðnvædd ríki að reiða 100 milljarða evra af hendi árlega.
„Þetta er loforð sem þegar hefur verið brotið,“ sagði forsetinn. „Nú er þetta skilyrði. Án 100 milljarða verður ekkert af samkomulagi í París.“ Hollande bætti svo við að upphæðin sé óhjákvæmileg til þess að hjálpa fátækari þjóðum í baráttu sinni við öfrafull veðurafbrigði og hækkandi yfirborð sjávar vegna loftslagsbreytinga. Fyrir sex árum hafi þessum þjóðum einnig verið lofuð aðstoð við uppbyggingu hreinna orkugjafa.
Á loftslagsráðstefnunni er markmiðið að búa til lagalega bindandi samkomulag allra ríkja heims um losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið sem taka á gildi árið 2020, eða þegar Kýótó-bókunin fellur úr gildi. Það sama var reynt í Kaupmannahöfn árið 2009 en ágreiningur iðnvæddra þjóða við þróunarlönd varð til þess að viðræður runnu út í sandinn.
Alls er ráðgert að fulltrúar 195 ríkja komi saman í París á COP 21 í desember. Þær þjóðir sem taka þátt hafa til 1. október til að skila Sameinuðu þjóðunum áætlun um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðeins 55 þjóðir hafa þegar skilað, þar á meðal Ísland sem fylgir markmiðum Evrópusambandsins og Noregs um 40 prósent minni losun árið 2030 miðað við losun ársins 1990.
„Við erum á réttri braut en erfiðasti hjallinn er enn eftir svo við verðum að vinna hratt,“ sagði Hollande. Hann tilkynnti einnig við þetta tækifæri að hann muni ferðast til Kína í nóvember og eiga fund með Xi Jinping, forseta Kína, og svo til Suður-Kóreu þar sem höfuðstöðvar Græna loftslagssjóðsins (Green Climate Fund) eru staðsettar. Sjóðurinn er vegum Sameinuðu þjóðanna og er hugsaður sem leið þróaðra ríkja til að dreifa peningum til þróunarlanda til að stemma stigu við loftslagsbreytingum.
Framlag stærstu efnahagsvelda heims til hjálparstarfs vegna loftslagsmála er nú um 30 milljarðar evra. Sjö stærstu iðnveldi heims (G7) funduðu í Þýskalandi í júní en voru gagnrýnd fyrir að ræða ekki áætlanir um að auka framlag sitt til ársins 2020.
Í dag hófst fundur í Durban-fundaröðinni í Bonn þar sem drög að samkomulagi eru undirbúin fyrir ráðstefnuna í París. Fundurinn mun standa alla vikuna en unnið hefur verið að samkomulaginu í fundaröðinni COP 17-loftslagsráðstefnan var haldin í Durban í Suður Afríku.