Birgir Jónsson, nýráðinn forstjóri flugfélagsins Play, segir aldrei hafa „verið eins spenntur fyrir neinu á ævinni eins og tækifærinu sem Play hefur til að ná árangri.“ Þetta sagði forstjórinn í færslu á Facebook í morgun og lét fylgja að það væri einhver „sérstök orka“ sem umlykti fólkið sem starfaði hjá fyrirtækinu og fólkinu sem hefði fjárfest í félaginu sömuleiðis.
„Ótrúlegur metnaður og hungur í árangur. Rosalegur kraftur,“ skrifar Birgir og deilir nýrri starfsauglýsingu frá félaginu, en Play auglýsir í dag tvær yfirmannastöður lausar til umsóknar, annars vegar stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs og hins vegar stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs.
„Þetta verður erfitt, flókið og hratt. En djöfull sem þetta verður gaman!!“ skrifar forstjóri Play og bætir við að það sé „gríðarlegur heiður“ fyrir sig að fá að leiða hópinn – „einhvernveginn finnst mér eins og að allt sem ég hef gert hingað til hafi verið uppbygging að þessu verkefni.“
Birgir, sem síðast starfaði sem forstjóri Íslandspósts, hefur reynslu úr flugheiminum en hann var á sínum tíma framkvæmdastjóri lággjaldaflugfélagsins Iceland Express og síðar aðstoðarforstjóri hjá WOW air.
Í starfsauglýsingunni frá Play segir að í hlutafjárútboði félagsins, sem lauk í síðustu viku, hafi fjárfestar komið með alls ríflega 6 milljarða króna í nýju hlutafé inn í félagið.
„Á næstu vikum og mánuðum er fyrirhugað að bjóða almenningi að fjárfesta í Play samhliða skráningu á verðbréfamarkað First North, leggja lokahönd á öflun flugrekstrarleyfis, hefja sölu flugmiða og að sjálfsögðu – byrja að fljúga. Meira seinna,“ segir í auglýsingu félagsins.
Ég hef aldrei verið eins spenntur fyrir neinu á ævinni eins og tækifærinu sem Play hefur til að ná árangri. Það er...
Posted by Birgir Jónsson on Saturday, April 17, 2021