Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, segir hugrenningar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, um að útiloka smærri stjórnmálaflokka frá opinberum styrkjum séu algjörlega á skjön við það sem gerist í okkar heimshluta. Tilgangurinn sé að ýkja völd Sjálfstæðisflokksins umfram fylgi og draga úr áhrifum kjósenda annarra flokka.
Þar vísar hann í ummæli sem Bjarni lét annars vegar falla í nýlegu viðtali við Dagmál á mbl.is og hins vegar í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni um liðna helgi.
Í viðtalinu við Dagmál sagði Bjarni að hann teldi það fjölflokkakerfi sem sé á Íslandi, þar sem átta flokkar eru á þingi og einn til viðbótar hafi ekki verið langt frá því að ná inn, sé að stóru leyti sjálfsköpuð staða. Flokkarnir hafi ákveðið að stórauka framlög úr ríkissjóði og setja þannig reglur að þeir flokkar sem fá ákveðið hlutfalla atkvæða (2,5 prósent) fái líka mikið fjármagn, jafnvel þótt þeir nái ekki inn á þing. Eins og er þá er Sósíalistaflokkur Íslands eini stjórnmálaflokkurinn sem fær fjárstyrk úr ríkissjóði án þess að eiga fulltrúa á þingi en nokkrir flokkar – Flokkur heimilanna, Flokkur fólksins, Íslandshreyfingin og Dögun –hafa fengið slíkar greiðslur áður.
Á Sprengisandi sagði Bjarni að hann vildi draga úr opinberum styrkjum til stjórnmálaflokka og að það veki „athygli hve ríflegur stuðningur er við stjórnmálaflokka sem engan fulltrúa fá kjörinn á Alþingi í kosningum.“
Bjarni hefur þó ekki lagt til grundvallarbreytingu á fyrirkomulaginu að öðru leyti en að framlög til þeirra í heild verða lækkuð sem hluti af aðhalds- og þensluminnkandi aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti í sumar.
Leið til að ýkja völd umfram fylgi
Í færslu á Facebook-síðu Sósíalistaflokksins segir Gunnar Smári að Bjarni sé ekki að leita að betri virkni lýðræðis með afstöðu sinni heldur að leita leiða til að ýkja völd Sjálfstæðisflokksins umfram fylgi flokksins og draga úr áhrifum kjósenda annara flokka.
Framlögin hækkuð gríðarlega á síðasta kjörtímabili
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega í byrjun síðasta kjörtímabils. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna. Einungis fulltrúar Flokks fólksins og Pírata skrifuðu ekki undir tillöguna.
Hún var sett fram sem sameiginlegt erindi sem bar yfirskriftina „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“. Í því var farið fram á að framlög til stjórnmálaflokka verði „leiðrétt“.
Kjarninn greindi frá því í desember í fyrra að þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði áttu samtals að fá 728,2 milljónir króna til að skipta á milli sín á þessu ári.
Það er sama upphæð og flokkarnir fengu samtals 2020 og sama upphæð og þeir fengu í fyrra. Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.
Tvær af þremur krónum komu úr opinberum sjóðum
Þessi ákvörðun hefur kúvent fjármálum stærstu stjórnmálaflokkanna. Eigið fé þeirra átta stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi jókst um samtals 747,6 milljónir króna frá árslokum 2017 og fram til ársloka 2020.
Sá flokkur sem hefur fengið mestu styrkina er stærsti flokkur landsins, Sjálfstæðisflokkurinn, sem fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum.
Samkvæmt síðasta birta ársreikningi flokksins var hann með 328,4 milljónir króna í tekjur á árinu 2020, þar af komu 195,5 milljónir króna úr ríkissjóði og 20 milljónir króna frá sveitarfélögum landsins. Því komu tvær af hverjum þremur krónum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í tekjur í fyrra úr opinberum sjóðum.
Til viðbótar sótti hann 53,1 milljón króna í framlög og félagsgjöld frá einstaklingum og lögaðilum og hafði 59,6 milljónir króna í aðrar tekjur, sem að uppistöðu eru leigutekjur. Á meðal þeirra lögaðila sem greiddu Sjálfstæðisflokknum hámarksstyrk upp á 550 þúsund krónur eru sjávarútvegsfyrirtæki mest áberandi.
Eignir Sjálfstæðisflokksins voru metnar á 925 milljónir króna í lok árs 2020, þar af voru fasteignir og lóðir metnar á 646 milljónir króna. Í október 2021 var samþykkt beiðni flokksins um að byggja blokk með 47 íbúðum og atvinnuhúsnæði á lóð Valhallar, höfuðstöðva Sjálfstæðisflokksins. Fyrir liggur að söluandvirði þeirra íbúða er mun hærra en bókfært virði lóðarinnar og samkvæmt frétt í Fréttablaðinu frá því í maí er virði lóðarinnar, með því byggingamagni sem má reisa á henni, um hálfur milljarður króna.