Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, sagði í Kastljósi í gær að hann teldi að Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, ætti að segja af sér líkt og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri þess, hafa valið að gera.
Sólveig Anna bregst við þessari kröfu í stöðuuppfærslu á Facebook í dag og segir að þótt henni hafi ekki verið hlátur í huga yfir viðtalinu við Guðmund þá hafi hún ekki getað annað en hlegið „agnarsmáum“ hlátri þegar þessi orð féllu. „Ég hugsaði um „afrekalista" hans í störfum fyrir félagið og fólkið sem tilheyrir því, og svo hvað Agnieszka hefur gert og þessvegna hló ég í örskamma stund. Fáránleiki þess að þessi maður væri að krefjast þess að hún léti sig hverfa var svo yfirgengilegur. En auðvitað fyrst og síðast svo óbærilega ógeðslegur.“
Hún segir að Agnieszka sé fyrsti raunverulegi fulltrúi aðflutts verkafólks í verkalýðsbaráttunni, en um helmingur félagsfólk Eflingar er aðflutt fólk. Með kjöri hennar hafi í fyrsta skipti verið sett manneskja í ábyrgðarhlutverk sem tilheyrir þeim hópi. „Hún þekkir allt það svívirðilega rugl sem viðgengst gagnvart aðfluttu verkafólki á eigin skinni. Allt. Hún hefur, ásamt mér og þeim í stjórn sem raunverulega hafa viljað bæta hag alls vinnuaflsins, ekki bara hag þeirra sem líta út og tala eins og þeir sjálfir, leitt stórkostlega umbóta vinnu innan félagsins þegar kemur að því að tryggja að okkar aðfluttu félagar eigi rétt á nákvæmlega sömu þjónustu og þau okkar sem fædd eru hér. [...] Og svo dirfist einhver maður að segja henni að láta sig hverfa. Ég myndi leggja til að hann skammaðist sín en ég veit af mikilli reynslu að það kann [hann] ekki.“
Í Kastljósi í gærkvöld krafðist Guðmundur Baldursson þess að Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, segði af...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Tuesday, November 2, 2021
Logar allt í illdeilum
Sólveig Anna sagði af sér á sunnudag og Viðar fylgdi eftir með uppsögn í gær. Forsagan af þeim deilum sem urðu til þess er að í júní samþykktu starfsmenn Eflingar ályktun sem hefur ekki verið birt opinberlega. Í henni voru stjórnendur stéttarfélagsins gagnrýndir með ýmsum hætti fyrir framkomu sína gagnvart starfsfólki. Trúnaðarmenn starfsmanna undirrituðu ályktunina og hún var sett fram fyrir hönd starfsmanna.
Vegna þessa ávarpaði Sólveig Anna starfsmenn á föstudagsmorgun og bað þá um að draga til baka ályktunina. Ef þeir myndu ekki gera það myndi hún segja af sér.
Þeir gerðu það ekki heldur sendu frá sér aðra ályktun þar sem kom fram að þeir töldu ósanngjarnt að stjórnendur veltu ábyrgð á innanhúsmálum yfir á sig.
Í kjölfarið sagði Sólveig Anna af sér og sagði starfsmenn Eflingar hafa hrakið sig úr starfi.
Guðmundur sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði að Sólveig Anna hafi „haldið lykilupplýsingum leyndum frá stjórninni til að hylma yfir vanlíðan starfsfólks á skrifstofu Eflingar“ með því að neita að kynna fyrir stjórninni starfslokasamning við fyrrverandi skrifstofustjóra Eflingar í upphafi þessa árs.
Allir eftirstandandi meðlimir stjórnar Eflingar nema þrír, alls ellefu manns, sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem þau hvöttu Guðmund til að segja af sér stjórnarmennsku. Þau hvöttu hann auk þess til að „láta verða af hugmyndum sínum um stofnun nýs klofnings-stéttarfélags.“