Sveitarstjórn Múlaþings samþykkti í vikunni fyrirliggjandi drög að samningi um samræmda móttöku flóttafólks. Í tillögunni sem samþykkt var segir að sveitarfélagið leggi „sérstaka áherslu á móttöku flóttafólks frá Úkraínu“.
„Það þýðir bara nákvæmlega þetta,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, í samtali við Kjarnann. Aðspurður hvort þetta þýði að Múlaþing muni útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum segir Björn að svo sé ekki, en að það verði megin áhersla sveitarfélagsins að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vinnur nú að undirritun samninga við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttafólks sem gildir til ársloka 2023. Samningurinn felur í sér fjárstuðning frá ríkinu svo sveitarfélög geti veitt þeim fjölda flóttafólks sem það er tilbúið til að taka á móti fullnægjandi þjónustu yfir gildistíma samningsins.
Markmið samningins er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríkis og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur. Ekkert kemur fram í þjónustusamningnum að sveitarfélög geti sett ákveðna fyrirvara um móttöku, til að mynda frá hvaða löndum flóttafólkið kemur.
Áhersla frá upphafi á flóttafólk frá Úkraínu
Björn segir áhersluna fyrst og fremst koma frá eigendum Eiða sem buðu húsnæði gamla Alþýðuskólans á Eiðum fram undir fólk á flótta eftir innrás Rússa í Úkraínu. Í dag eru um 30 flóttamenn búsettir á Eiðum.
„Þetta hefur verið áhersla frá upphafi. Við gerum okkur hins vegar alveg grein fyrir því að samningurinn snýst um samræmda móttöku flóttafólks en þetta er okkar megin áhersla. Sveitarfélagið hafði í rauninni ekki yfirráð á húsnæði til að geta brugðist við þessu fyrr en eigendur Eiða höfðu frumkvæði að þessu,“ segir Björn.
Fulltrúi Miðflokksins samþykkti með þeim fyrirvara að verið væri að tryggja móttöku fólks frá Úkraínu
Þröstur Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram bókun á fundi sveitarstjórnar í vikunni þar sem hann segist samþykkja samningsdrögin þar sem það sé hans skilningur að samningurinn sé eingöngu til að tryggja framgang móttöku flóttafólks frá Úkraínu. „Að þeim skilningi gefnum samþykki ég fyrirliggjandi samningsdrög,“ segir í bókun Þrastar.
Björn segist ekki geta tjáð sig frekar um bókun Þrastar. „Þetta er í rauninni bara hans skilningur.“
Samningurinn fer nú til ráðuneytisins þar sem mun koma í ljós hvort tillit verður tekið til áherslu sveitarfélagsins um að leggja áherslu á móttöku flóttafólks frá Úkraínu. „Það verður bara að koma í ljós hvernig þessi mál þróast. Það verður alltaf samtal okkar og ráðuneytis,“ segir Björn.