Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir atburðarásina í umræðunni um móttöku flóttafólks síðustu daga lýsandi fyrir samstarf ríkisstjórnarflokkanna.
„[Ríkisstjórnarflokkarnir] eru fullir af orku og vilja til verka en komast ekki lönd né strönd vegna innanmeina og deilna. Deilurnar við ríkisstjórnarborðið eru handbremsa í þeim verkefnum sem ráðast þarf í,“ sagði Sigmar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur verið sakaður um að ala á ótta í garð hælisleitenda í umræðu um málefni flóttafólks síðustu daga, bæði á Alþingi sem og í fjölmiðlum. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur sagt það grafalvarlegt mál að dómsmálaráðherra taki undir orðræðu sem er til þess fallin að auka jaðarsetningu fólks sem þegar tilheyrir minnihlutahópi.
Dómsmálaráðherramælti í síðustu viku fyrir frumvarpi til laga um landamæri. Ráðherra sagði af því tilefni í samtali við Morgunblaðið að borið hafi á því að hælisleitendur hafi komið til Íslands með venesúelsk vegabréf „þrátt fyrir að vera frá öðrum löndum“. Þá sagði hann í samtali við RÚV að ástandið væri stjórnlaust og að bregðast þurfi við auknum fjölda hælisleitenda með hertum reglum.
Dómsmálaráðherra klappaður upp af flokksfélögum en mótmælt af Vinstri grænum
Sigmar sagði dómsmálaráðherra vera klappaðan upp af flokksfélögum sínum, mjög ákaft, á meðan Vinstri græn rísi upp og mótmæli.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í síðustu viku að hún gæti ekki tekið undir með dómsmálaráðherra að um stjórnlaust ástand væri að ræða. Nokkrum dögum seinna viðraði dómsmálaráðherra þá hugmynd að koma upp lokuðum flóttamannabúðum hér á landi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir það ekki standa til. Hann sagði í samtali við RÚV að slíkt lýsi pólitískum skoðunum dómsmálaráðherra en ekki stefnu ríkisstjórnarinnar.
Sérstök umræða um stöðuna á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda var á dagskrá þingfundar í gær. Þar spurði Sigmar formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannesson, hvort hann væri hlynntur stefnunni sem dómsmálaráðherra hefur boðað í flóttamannamálum. Sigmar segist hafa fengið „ákaflega framsóknarlegt svar“ sem hafi verið efnislega svohljóðandi: „Ég svara því seinna. Þá skal ég segja þér fyrir hvað ég stend og hvað ég vil verja.“
Líkti formanni Framsóknar við örmagna foreldri
Sigmar hélt áfram og sagði formanni Framsóknar vera ákveðin vorkunn. „Hann er eins og örmagna foreldri sem þarf sífellt að þola rifrildi og ósamkomulag barnanna sem sitja á vinstri og hægri hönd við matarborðið. Slíkt tekur eðlilega á taugarnar til lengri tíma.“
Málefni flóttafólks er ekki eina málið þar sem ríkisstjórnarflokkunum greinir á að mati Sigmars. „Þetta gerist í hverju málinu á fætur öðru. Þetta er að gerast í orkumálum, þetta er að gerast í landnýtingarmálum, í auðlindamálum, í skattamálum og núna í útlendingamálum. Og þetta er ekki tæmandi upptalning.“
Að hans mati gengur það ekki til lengdar að hafa ríkisstjórn í landinu sem hefur þrjár skoðanir á hverju máli sem er til umfjöllunar í núinu.
„Það er skiljanlegt að flokkarnir séu ólíkir og hafi hver sína sýn en þegar þeir koma sér ekki saman um stefnu, aftur og aftur, þá er þetta ríkisstjórnarsamstarf ekki sjálfbært fyrir þjóðina,“ sagði Sigmar.