„Í allt sumar hafa vaxtahækkanir Seðlabankans verið kvíðaefni á heimilum landsins. Verðbólga er í hæstu hæðum hér líkt og víða annars staðar,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, undir liðnum Störf þingsins á Alþingi í dag.
Benti hún á að verðbólgan væri vissulega ekki íslenskt vandamál en vextir hér væru margfalt hærri en víða annars staðar, til dæmis í Danmörku, þrátt fyrir að þar sé svipuð verðbólga.
Í síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans, sem tekin var 24. ágúst, voru stýrivextir hækkaðir um 0,75 prósentustig í 5,5 prósent. Vextirnir hafa ekki verið svo háir síðan í ágúst 2016, eða í sex ár. Eftir nýjustu vaxtahækkunina hefur peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkað vexti um um 4,75 prósentustig síðan í maí í fyrra. Á þessu ári einu saman hafa vextirnir hækkað um 3,5 prósentustig, en þeir voru tvö prósent um síðustu áramót.
Verðbólga mælist nú 9,7 prósent, minni en hún mældist í mælingunni þar á undan, í júlí, þegar hún mældist 9,9 prósent. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem tólf mánaða verðbólga lækkar milli mánaða.
Fjórði stærsti útgjaldaliðurinn vaxtakostnaður
Áætlaður halli á fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í upphafi mánaðar er 89 milljarðar, 6,5 milljörðum hærra en gert var ráð fyrir í vor. Þorbjörg benti á að fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins er vaxtakostnaður og sagði hún fjárlagapólitík í raun snúast um eina einfalda en mikilvæga spurningu: Hvernig virkar samfélagið okkar best?
Þorbjörg Sigríður sagði fjárlögin eiga að vera leiðina að þessu markmiði, það er leiðina að því hvernig samfélagið virkar best.
„Við eigum að fara vel með fjármuni ríkisins. Við eigum að verja þeim í mikilvæga þjónustu í þágu almannahagsmuna. Það á ekki að þenja ríkið út bara af því bara og skilja svo reikninginn eftir fyrir næstu ríkisstjórn,“ sagði hún.