Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að hún sé „innilega ósammála“ þeirri línu sem Kristrún Frostadóttir, formannsframbjóðandi i flokknum, hefur lagt varðandi nýju stjórnarskrána og aðild að Evrópusambandinu. „Við verðum þá bara að vera sammála um að vera innilega ósammála um þessi tvö grundvallarstefnumál Samfylkingarinnar. Stefnan er svo samin af grasrót og rædd og samþykkt á landsfundi svo við skulum sjá hvort flokksfólki hefur snúist hugur.“
Þetta kemur fram í ummælum við færslu Helgu Völu á Facebook sem birt var í gær. Með færslunni deildi Helga Vala frétt um að þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata hefðu lagt fram þingsályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um hvort Íslandi ætti að fara í viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Bæði Helga Vala og Kristrún eru á meðal flutningsmanna tillögunnar.
Í fréttum er þetta helst - forgangsmál okkar er mikið hagsmunamál fyrir almenning um allt land.
Posted by Helga Vala Helgadóttir on Thursday, September 15, 2022
Ekki þingmeirihluti fyrir nýju stjórnarskránni
Kristrún sagði í viðtali við Kjarnann um liðna helgi að raunveruleikinn væri sá að það sé ekki meirihluti á þingi fyrir því að samþykkja nýju stjórnarskránna. Hún sagðist hafa verið alveg hreinskilin með það að hún vilji ekki fara í vegferð á næsta kjörtímabili sem hún sjái ekki fram á að geta skilað í höfn. Kristrún sagði að það hafi líka verið skiptar skoðanir um hvaða hluta stjórnarskrárinnar það eigi að endurskoða. „Ég vil að við leggjum áherslu á mál sem við vitum að við getum skilað af okkur. Það þýðir ekki að það sé ekki ákveðin réttlætisákvæði þarna sem á að tala fyrir og að það eigi að koma málinu í einhverskonar farveg. En ég vil ekki senda þau skilaboð út til almennings að við getum ekki komist áfram í kjarna-velferðarmálum nema að við fáum nýja stjórnarskrá.“
Óþolinmóðari en Kristrún
Í sama viðtali ræddi Kristrún Evrópusambandsmál og sagði að stefna Samfylkingarinnar þar væri alveg skýr og yrði það áfram. „Við höfum verið fylgjandi Evrópusambandsaðild. Ég er sjálf stuðningsmaður Evrópusambandsins. Ég er hins vegar líka meðvituð um það að eins og er þá er ekki þingmeirihluti fyrir málinu þótt kannanir séu að fara upp á við varðandi viðhorf þjóðarinnar gagnvart aðild. Fyrsta skrefið fyrir mér er að spyrja þjóðina hvort við eigum að fara í þetta verkefni. Leggja aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka svo stöðuna í kjölfarið.“
Innganga í Evrópusambandið er einnig á meðal mála sem tiltekin eru í samþykktri stefnu Samfylkingarinnar. Líkt og áður sagði eru bæði Helga Vala og Kristrún, ásamt öllum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, flutningsmenn þingsályktunartillög um að leggja aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í umræðunum á Facebook-þræði Helgu Völu útskýrir hún að munurinn á afstöðu hennar og Kristrúnar felist aðallega í því að hún sé óþolinmóðari en Kristrún. „Tel að við höfum beðið nógu lengi nú þegar. Klárum málið!“
Nýr formaður Samfylkingarinnar verður kosinn á landsfundi í næsta mánuði. Sem stendur er Kristrún eini einstaklingurinn sem hefur tilkynnt um framboð, en Logi Einarsson, núverandi formaður, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri.