„Fullyrðingar samtakanna um að áformin valdi eyðileggingu á víðernum og náttúru og séu ávísun á erfiðar deilur eru ekki svaraverðar.“
Þetta kemur fram í viðbrögðum forsvarsmanna Geitdalsárvirkjunar ehf. við umsögn Landverndar á matsáætlun fyrir samnefnda virkjun sem áformuð er í Múlaþingi. Matsáætlun, sem er eitt skref í umhverfismati framkvæmda, var lögð fram til kynningar síðasta vetur. Umsagnir bárust frá fjölmörgum stofnunum, samtökum og einstaklingum þar sem ítrekað var m.a. mikilvægi margvíslegra rannsókna á hinu fyrirhugaða virkjanasvæði, rannsókna sem eru lykilatriði í því að varpa ljósi á þau umhverfisáhrif sem af virkjuninni myndu hljótast. Bent var á að meta þyrfti votlendi sem yrði fyrir áhrifum, fossa og óbyggð víðerni – allt fyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum og má ekki raska nema að brýna nauðsyn beri til.
Geitdalsárvirkjun ehf. er alfarið í eigu Arctic Hydro hf. Það félag er skráð í eigu sex aðila og á Quadran Iceland ehf. (nú Qair Iceland), sem áformar fjölmörg vindorkuver vítt og breitt um landið, stærstan hlut eða 38 prósent. Stjórnarformaður þess er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra í tíð Geirs H. Haarde.
Adira Hydro á 23 prósent í Arctic Hydro og Snæból, fjárfestingafélag Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, á 18 prósent.
Tíu prósenta hlutur Arctic Hydro er svo í eigu Hængs ehf. Það félag er að fullu í eigu Benedikts Einarssonar, frænda Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Samkvæmt matsáætlun yrði Geitdalsárvirkjun 9,9 MW, rétt undir 10 MW mörkunum sem hefði þýtt að kosturinn yrði að fara í ferli rammaáætlunar.
Í umsögn Landverndar kemur fram að umrædd áform sýni fram á mikilvægi þess að breyta viðmiðum svo framkvæmdaaðilar komist ekki upp með að ráðast í jafn stórtækar virkjunarframkvæmdir og hér um ræði án umfjöllunar faghópa og verkefnisstjórnar um rammaáætlun. Benda samtökin á að ef af framkvæmdum verði, séu auknar líkur á enn frekari framkvæmdum á svæðinu þar sem fyrirtækið hyggi jafnvel á stækkun Geitdalsárvirkjunar á síðari stigum. Benda samtökin á að þessi áform séu ekki eingöngu „ávísun á eyðileggingu verðmætra víðerna og náttúru“ heldur séu þau einnig „ávísun á erfiðar deilur sem spilla munu samheldni og friði í aðliggjandi samfélögum“.
Líkt og lög og reglur gera ráð fyrir gefst framkvæmdaaðila færi á að bregðast við umsögnum við matsáætlun áður en Skipulagsstofnun gefur út álit sitt á áætluninni. Forsvarsmenn Geitdalsárvirkjunar benda í svari sínu við þessum athugasemdum Landverndar á að í umhverfismatsskýrslu verði nánari grein gerð fyrir því hver endanleg stærð og afköst virkjunarinnar koma til með að verða. „Framkvæmdaraðili hefur enga skoðun á sýn Landverndar til viðmiða rammaáætlunar.“
Landvernd er ekki eini umsagnaraðilinn sem bendir á þá aflstærð virkjunaráformanna. Það gerir Orkustofnun einnig. Í umsögn hennar er bent á að ekki liggi fyrir hvaða forsendur liggi að baki reikningum á virkjuðu rennsli sem geti leitt til 9,9 MW virkjunar. Í næsta skrefi umhverfismats þurfi að fjalla um rennsli, miðlun og fyrirhugaðar veitur. Jafnframt veltir stofnunin því upp hvort rekstraraðili hafi reiknað kosti og galla aukinnar framleiðslugetu.
Í svörum forsvarsmanna Geitdalsárvirkjunar segir að orkugetureikningar verði byggðir á rennslisröðum til ársins 2018 og að í umhverfismatsskýrslu verði gerð nánari grein fyrir öllum forsendum að baki áformunum.
Geitdalsá á upptök sín í lækjum og tjörnum á hálendinu upp af Hamarsdal og Fossárdal vestan Ódáðavatna, í jaðri svæðis sem nefnist Hraun. Hún rennur til norðurs, á köflum í gegnum gljúfur og í fossaröðum, og á þessari leið falla í hana margar þverár og lækir.
Mest af vatni Geitdalsár kemur úr Leirudalsá, á sem rennur í gegnum nokkur stöðuvötn á leið sinni úr vestri. Tvö þessara vatna munu fara undir miðlunarlón verði áform fyrirtækisins að veruleika.
Tvær stíflur yrðu reistar, önnur við miðlunarlón í Leirudal, lón sem yrði í rúmlega 700 metra hæð yfir sjávarmáli og um þrír ferkílómetrar að stærð. Stíflan sú yrði 1 kílómetri að lengd og mesta hæð hennar 18 metrar. Önnur stífla vegna inntakslóns yrði gerð í farvegi Geitdalsár. Hún er áætluð um 300 metrar að lengd og mesta hæð hennar yrði 32 metrar.
Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) benda í umsögn sinni á að Geitdalsárvirkjun sé einungis ein af þeim virkjunum sem áætluð sé á svæðinu og segja, líkt og Landvernd, að auki þess íhugi framkvæmdaaðili stækkun hennar. Því sé brýnt að víðtæk skoðun verði gerð á þeim fyrirætlunum um raforkuframleiðslu sem uppi eru og umhverfisáhrif þeirra á svæðið skoðuð heildstætt.
Framkvæmdaaðilinn svarar því til að önnur virkjunaráform séu enn á rannsóknarstigi „og ekki vitað hvort og þá hvenær umhverfisáhrif þeirra verði skoðuð.
NAUST segja brýnt að skoða samfélagsleg áhrif framkvæmdanna. Lausleg könnun leiði í ljós að drjúgur meirihluti íbúa sé andsnúinn frekari virkjunum. Eina svar framkvæmdaaðila við þessu er að ítreka að í umhverfismatsskýrslunni verði lagt mat á samfélagsleg áhrif.
Landerfingjar í Skriðdal benda í umsögn sinni á að Fljótsdalshérað sé sennilega meðal þeirra sveitarfélaga sem búi við hvað tryggustu afhendingu raforku, þar sem uppsett afl raforkuvera sé um 720 MW. Með áframhaldandi uppbyggingu raforku dreifikerfisins, t.a.m. með Kröflulínu 3, muni öryggi afhendingar aukast enn frekar og því draga þeir raunverulega þörf fyrir Geitdalsárvirkjun í efa.
Forsvarsmenn Geitdalsárvirkjunar svara þessu einfaldlega með því að í umhverfismatsskýrslu verði gerð nánari grein fyrir áhrifum virkjunar á framboð, öryggi og gæði raforku á svæðinu.
Segja öll áhrif rennslisbreytinga afturkræf
Pétur Heimisson, sem segist þekkja vel til svæðisins og fara þar reglulega um, segir í umsögn sinni að áhrif Geitdalsvirkjunar yrðu óafturkræf, enda ekki hægt að snúa áhrifum slíkra framkvæmda til baka og „endurlífga fossaraðir“.
„Áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fossa verða metin í umhverfismats- skýrslu,“ segir í viðbrögðum virkjunaraðilans. „Hér skal þó tekið fram að öll áhrif rennslisbreytinga eru afturkræf og því ekki rétt með farið í þessari athugasemd.“
Pétur minnir einnig á að náttúran eigi sinn tilvistarrétt og með virkjun yrði lífríki svæðisins raskað með ófyrirséðum afleiðingum. Framkvæmdaaðilinn segir ljóst að ákvörðun um að heimila virkjunina verði tekin á grundvelli „ítarlegra gagna og yfirgripsmikillar þekkingar“. Ófyrirsjáanlegar afleiðingar verði því að teljast ólíklegar.
Guðmundur Ármannsson og Gréta Ósk Sigurðardóttir, bændur að Vaði í Skriðdal, vekja athygli á því að um 80 prósent af allri raforku framleiddri hér á landi fari til stóriðju. Þeir sem áhuga hafi á að taka til sín sem flestar ár til raforkuframleiðslu séu vitanlega eingöngu að hugsa um eigin fjárhag. Það sé með öllu ólíðandi að slíkir hafi frjálsan aðgang að náttúru landsins. Loftslagsváin vomi yfir og ekki sé hægt að „halda partíinu áfram“. Vatnsaflsvirkjanir og umfram framleiðsla raforku eigi ekki að vera næsta mál á dagskrá.
Að 80 prósent raforku fari til stóriðju má líta á sem framlag Íslands til minni koltvísýringslosunar og þar með loftslagsvárinnar, segir í svörum virkjunaraðilans, þar sem um sé að ræða iðnað sem að öðrum kosti yrði rekinn annars staðar með orku sem losar margfalt magn koltvísýrings.
Afar langsótt að bera saman við Kárahnjúkavirkjun
Guðmundur og Gréta segja stríð hafa geisað milli fólks fyrir austan á tímum Kárahnúkaframkvæmdanna. Margir hafi flutt burt og tengsl vina, nágranna og fjölskyldna rofnað. Það gefi auga leið að allt tal um að nú eigi að blása í herlúðra að nýju, eyðileggja friðsamlega sambúð í litlum samfélögum, veki upp ugg og skelfingu.
„Hér verður ekki lagt mat á „stríðið“ sem Guðmundur og Gréta kalla að hafi ríkt meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúkavirkjun,“ segir í svörum Geitdalsvirkjunar ehf. „Þó skal það tekið fram að það er afar langsótt að ætla að bera fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Geitdalsárvirkjunar saman við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun.“
Ekki tímabært að leggja mat á hvort virkjun sé réttlætanleg
Ingibjörg Jónsdóttir, Jónína Zophoníasdóttir og Einar Hróbjartur Jónsson telja enga ríka almannahagsmunir í húfi né orkuþörf sem réttlæti það rask sem myndi eiga sér stað á fossum svæðisins. Framkvæmdaaðilinn svarar því til að áhrif rennslisbreytinga virkjunarinnar á fossa verði metin en að á þessu stigi sé „ekki tímabært að leggja mat á hvort þau áhrif séu réttlætanleg“.
Þremenningarnir hvetja Skipulagsstofnun til að hafna matsáætluninni þar sem ekki sé hægt að réttlæta byggingu Geitdalsárvirkjunar á nokkurn hátt.
„Í þessu samhengi skal á það bent, að niðurstöður umhverfismats liggja ekki fyrir,“ svarar framkvæmdaaðili. Í umhverfismatsskýrslu verði niðurstöður rannsókna og mat áhrifa, byggt á þeim, sett fram. „Út frá þeim niðurstöðum verður skoðað hvort umhverfisáhrifin teljist réttlætanleg.“
Álit Skipulagsstofnunar á matsáætlun Geitdalsvirkjunar ehf. er í vinnslu.