„Sum lönd hafa innleitt takmarkanir sem beinast aðeins gegn kínverskum ferðamönnum. Þetta er ekki byggt á neinum vísindalegum grunni og sumar þessara aðgerða eru óásættanlegar.“
Þetta segir Mao Ning, talskona utanríkisráðuneytis Kína eftir að mörg ríki, m.a. nokkur Evrópuríki, tóku upp á því að krefja kínverska ferðamenn um neikvæð COVID-próf. Til þessara aðgerða hefur verið gripið þar sem ný bylgja smita er að rísa í Kína eftir að hörðum samkomutakmörkunum í landinu var aflétt fyrir nokkrum vikum. Mao Ning segir að mögulega muni kínversk stjórnvöld grípa til „gagnaðgerða“.
Nokkrir leiðtogar þeirra þjóða sem sett hafa takmarkanir á ferðamenn frá Kína hafa svarað fyrir aðgerðir sínar eftir að ummæli Mao Ning féllu. „Ríkisstjórn mín er að gegna því hlutverki sínu að vernda franska borgara og biðja [kínverska ferðamenn] um COVID-próf,“ segir Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands.
Ítölsk stjórnvöld voru þau fyrstu til að taka upp skimun eftir kórónuveirunni meðal kínverskra ferðamanna við komu þeirra til landsins. Sú skimun hófst 28. desember. Bandaríkin fylgdu í kjölfarið og hafa boðað sambærilega skimun frá 5. janúar. Frakkar, Spánverjar og Bretar hafa svo einnig ákveðið að gera slíkt hið sama. Og fleiri ríki hafa bæst í hópinn allra síðustu daga.
Aðgerðirnar eru þó misjafnar milli landa. Í sumum þurfa kínverskir ferðamenn að framvísa neikvæðu COVID-prófi við komu til áfangastaða sinna en í öðrum þurfa þeir að undirgangast slíkt próf við komuna.
Í Frakklandi var síðari kosturinn valinn. Franskir heilbrigðisstarfsmenn munu því taka PCR-próf af kínverskum farþegum. Raðgreina á svo þau sýni til að fylgjast með hvaða afbrigði eru á ferðinni og þá mögulega hvort að ný afbrigði séu að dúkka upp í Kína þar sem kórónuveiran SARS-CoV-2 er talin hafa orðið til fyrir rúmlega þremur árum.
„Við viljum ganga úr skugga um að það séu engin ný afbrigði,“ segir Borne. „Við erum að gera raðgreiningar til að fylgja reglum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.“
WHO hefur nú í tvígang á allra síðustu dögum hvatt kínversk stjórnvöld til að veita rauntímaupplýsingar um faraldurinn í landinu. Þær upplýsingar sem hafa borist síðustu vikur eru takmarkaðar og sýna í raun engan veginn fram á þann veruleika sem þykir blasa við í líkhúsum og á sjúkrahúsum. Myndir af troðfullum bráðamóttökum sjúkrahúsa m.a. í Peking hafa birst í fjölmiðlum síðustu daga. WHO hefur líka kallað eftir því að raðgreiningar verði gerðar í Kína og þeim upplýsingum deilt.
Ekki hefur enn verið tekin ákvörðum um hvort að kínverskir ferðamenn verða skimaðir við komuna til Íslands eða þeir beðnir um að framvísa neikvæðum prófum. Hins vegar gæti það breyst bráðlega. Sóttvarnalæknir hefur sagt að hingað til hafi íslensk heilbrigðisyfirvöld fylgt ákvörðunum Evrópusambandsins í þessum efnum. Sameiginleg stefna hefur ekki verið mörkuð innan ESB en til hennar hefur þó verið hvatt, m.a. frá ítölskum stjórnvöldum. Þau eru vissulega mjög brennd af sinni reynslu. Þar braust faraldurinn fyrst út í Evrópu í upphafi árs 2020. Sjúkrahús yfirfylltust og þúsundir týndu lífi.
Óskað eftir neyðarfundi
Í morgun kom svo fram í fréttum að Svíar hafa óskað eftir neyðarfundi hjá Evrópusambandinu til að ræða viðbrögð við fjölgun Covid-smita í Kína. Mikill ferðahugur er hjá Kínverjum og yfirvöld fjölda ríkja, þar á meðal hér á landi, íhuga aðgerðir á landamærunum.
Sérfræðingar ESB í sjúkdómavörnum eru sagðir hafa lýst því yfir á fundi nýverið að takmarkanir sem gripið hefur verið til gagnvart kínverskum ferðamönnum séu ótímabærar og óréttlætanlegar. Því var það niðurstaðan að fara ekki í sameiginlegar aðgerðir en nokkur aðildarríki hafa ekki viljað taka neina sénsa. Þannig er því farið með Frakkland og Ítalíu til dæmis.