Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti fund með Gerard Pokruszyński sendiherra Póllands á Íslandi síðasta föstudag og tjáði honum að smitskömmun í garð Pólverja á Íslandi væri ólíðandi, en pólski sendiherrann hafði á fundinum látið í ljós áhyggjur af neikvæðri umræðu í garð Pólverja á Íslandi í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í dag. Þar segir einnig að Guðlaugur Þór hafi á fundinum áréttað mikilvægi þess að íbúum Íslands væri ekki mismunað í tengslum við COVID-19, hvorki pólskum né öðrum af erlendum uppruna.
„Faraldurinn hefur kallað fram marga góða eiginleika í fari þjóðarinnar en líka slæma. Einn þeirra er smitskömmunin, sem á undanförnum vikum hefur beinst að íbúum landsins af erlendum uppruna. Við getum ekki liðið að fólki sé mismunað á slíkum grundvelli enda fer veiran ekki í manngreinarálit. Pólska samfélagið hér á landi hefur bæði auðgað þjóðlífið og átt ríkan þátt í skapa hagsæld undanfarinna ára og umræða undanfarinna daga í þess garð er bæði óvægin og ósanngjörn,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu ráðuneytisins.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn vakti máls á því á upplýsingafundi almannavarna síðasta fimmtudag að Pólverjar á Íslandi hefðu fengið ljót skilaboð að undanförnu, eftir að hópsmit komu upp í samfélaginu í kjölfar þess að örfáir einstaklingar héldu ekki sóttkví.
„Við höfum oft talað um að veiran sé andstæðingurinn í þessu, það ætlar enginn að smitast og það ætlar enginn að smita annan. En nú erum við að fá upplýsingar um það að börn og fullorðnir sem hafa tengst hópsmitum og lent í því að vera hluti af þeim, eru að fá öfgafull skilaboð, rasísk og mjög ljót skilaboð. Þau eru líka að verða fyrir nánast einelti úti á götu. Eingöngu, virðist vera, vegna þess að þau koma frá tilteknu landi. Ekki dæma alla fyrir eitthvað sem örfáir hafa gert,“ sagði Víðir.