Kerfislægt vandamál veldur því að séreignalífeyrissparnaður margra fer ekki inn á höfuðstól húsnæðislána, eins og leiðréttingin svokallaða kveður á um, heldur í vexti. Afborganir fólks hafi þannig lækkað en ekki höfuðstóllinn. Þetta kemur fram í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.
Morgunblaðið hefur greiðsluseðla undir höndum þar sem fram kemur að fólk greiði 3 til 35 þúsund krónur í vexti á mánuði í stað þess að upphæðin fari inn á höfuðstól íbúðalána, eins og lög kveða á um. Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, lögfræðingur hjá ríkisskattstjóra, segir að vandamálið helgist af því að kerfi lánastofnana hafi ekki ráðið við að koma sparnaði fólks inn á höfuðstólinn. Lánastofnanir hafa flestar komið í veg fyrir að þetta gerist núna, nema Íbúðalánasjóður. Jarðþrúður segir vandamálið hafa verið viðvarandi frá því að úrræðið var kynnt.
Kjarninn greindi frá því í byrjun mars að fjöldi fólks hefði orðið fyrir því að lífeyrissparnaður þess færi í borgun vaxta en ekki höfuðstólinn á lánunum. Þetta stafar af því að greiðsla frá lífeyrissjóði viðkomandi barst ekki sama dag og gjalddagi húsnæðisláns var.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri sagðist kannast við vandamálið þá, en sagði jafnframt að ekki væri vitað til annars en að þá hafi verið búið að bregðast við og lagfæra „ónákvæmni sem þarna var.“ Svo virðist ekki vera miðað við umfjöllun Morgunblaðsins.
Gunnhildur Gunnarsdóttir, sitjandi forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir þar í dag að vandamálið sé tæknilegt. Ekki hefur verið komist fyrir þetta vandamál.
„Því höfum við beint til viðskiptavina okkar að greiða á gjalddaga. Síðan er greiðslum frá lífeyrissjóðum ráðstafað á 1-3 dögum síðar. Því er vaxtatímabilið eingöngu sá tími, 1-3 dagar. Við höfum gripið til þessara leiða til að takmarka þetta eins og hægt er og reynt að koma til móts við fólk og leyfa því að greiða inn á lánin sem nemur vaxtaupphæðinni,“ segir hún.