„Fyrir utan þau verulegu óafturkræfu áhrif sem framkvæmdin mun hafa á jarðminjar með hátt verndargildi og landslag, vakna upp grundvallarspurningar um táknræna og siðferðislega þýðingu þess að áberandi fjall sé fjarlægt í heilu lagi úr íslenskri náttúru.“
Þetta kemur fram í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um matsáætlun Eden Mining vegna fyrirhugaðrar efnistöku úr Litla-Sandfelli í Þrengslum. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að vinna allt fjallið, um 15 milljónir rúmmetra, á þrjátíu árum. Megin þorri efnisins yrði fluttur út og nýttur til sementsframleiðslu í stað flugösku sem fer að verða af skornum skammti með áformuðum lokunum kolavera í Þýskalandi og víðar.
Álit Skipulagstofnunnar á matsáætluninni, sem er eitt skref í umhverfismati framkvæmda, liggur fyrir. Stofnunin bendir á mörg atriði sem hún telur nauðsynlegt að gerð verði ítarleg grein fyrir í umhverfismatsskýrslu, m.a. áhrif námuvinnslunnar á landslag og ásýnd og á ferðaþjónustu og útivist.
Fyrirhuguð efnistaka er á mörkum fjarsvæðis og grannsvæðis vatnsverndar. Grunnvatnsstraumur svæðisins liggur til suðurs þar sem eru vatnsból íbúa Þorlákshafnar og vatnstaka í tengslum við ýmiskonar fyrirtæki, s.s. átöppunarverksmiðja Iceland Glacial. Skipulagsstofnun segir brýnt að gerð verði grein fyrir því hvaða þættir séu líklegastir til að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn og hvaða ráðstafanir verði viðhafðar til að koma í veg fyrir mengun þess. Einnig þurfi að gera grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda, þ.m.t. vegna flutninga til meginlands Evrópu og meta áhrif framkvæmdar á loftslag.
Eden Mining ehf. í eigu Kristins Ólafssonar og Eiríks Ingvars Ingvarssonar. Fyrirtækið starfrækir einnig námu í Lambafelli og á Hraunsandi. Litla-Sandfell er á jörðinni Breiðabólstað sem er í eigu Kirkju sjöunda dags aðventista. Söfnuðurinn á einnig landið þar sem Raufarhólshelli er að finna. Eden Mining hefur skrifað undir samning um að selja jarðefnin úr námunni til Hornsteins ehf. sem tæki við því til vinnslu í verksmiðju í Þorlákshöfn. Sú verksmiðja mun þurfa að fara í gegnum sjálfstætt umhverfis- og skipulagsferli.
Í nálægð við Litla-Sandfell eru þrjú svæði á náttúruminjaskrá: Eldborgir við Lambafell, Eldborg undir Meitlum og Raufarhólshellir. „Þetta eru allt vinsæl útivistarsvæði með mikil tækifæri til framtíðar fyrir ferðaþjónustu,“ segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar sem bendir ennfremur á að Leitahraun sem umlykur fjallið sé nútímahraun sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.
Í umsögn stofnunarinnar er svo fjallað um þá miklu ásókn sem orðin er í efni úr móbergsmyndunum hér á landi. Megi þar m.a. nefna nálægar efnisnámur við Litla-Sandfell eins og Lambafell og Ingólfsfjall „en gífurlega miklu magni af efni hefur verið mokað úr þeim fjöllum á síðustu árum“.
Ekki sé æskilegt að til viðbótar við núverandi efnistökur hér á landi verði „farið í að moka burt heilu móbergsfjöllunum til útflutnings. Slík efnistaka mun valda varanlegum og óafturkræfum breytingum á jarðmyndunum sem hafa hátt verndargildi, ásamt breytingum á landslagi. Litla-Sandfell stendur stakt í nálægð við Þrengslaveg. Þrátt fyrir að vera fremur lítið er það áberandi kennileiti í landslaginu og mjög aðgengilegt t.d. göngufólki“.
Í svörum Eden Mining við umsögninni, sem birt eru á vef Skipulagsstofnunar, segir að Litla-Sandfell blasi vissulega við vegfarendum á um fimm kílómetra kafla á Þrengslavegi en það megi deila um hversu áberandi það sé í íslenskri náttúru og „líklega geti aðeins „örlítill hluti landsmanna“ bent á það á korti. Litla-Sandfell standi undir nafni, „það er ósköp lítið og minnir frekar á stóran hól“.
Náttúrufræðistofnun telur það áhyggjuefni hvernig efnistaka á Íslandi sé að þróast út í útflutning á hráefni í stórum stíl, s.s. hráefni fyrir sementsframleiðslu. Horfa þurfi heildstætt á efnistöku og efnisflutninga og samlegðaráhrif mismunandi fyrirtækja.
Segja áhrif á náttúruna verða mjög lítil
Í svörum Eden Mining við þessu er minnt á að í áratugi hafi verið flutt inn sement, málmar og önnur efni frá öðrum löndum sem hafi stundað námugröft og jarðefnavinnslu. „Nú er komið að okkur að leggja eitthvað að mörkum og mun þetta framlag Íslendinga hjálpa til við að minnka kolefnislosun í heiminum. Við getum ekki ætlast til að aðrar þjóðir séu hvað eftir annað að taka á sig höggið og umhverfiskostnaðinn sem að neysla okkar veldur og snúa svo við þeim baki þegar kemur að því að leggja eitthvað til á móti.“
Náman mun að sögn framkvæmdaaðila raska mjög litlum gróðri og hafa lítil áhrif á fugla og annað dýralíf. „[Á]hrif á náttúruna eru mjög lítil, aðaláhrifin eru huglægt verðmæti okkar mannfólks sem felast í ásýnd fellsins.“
Arnar Þorvaldsson, annar tveggja einstaklinga sem skilaði athugasemd við áformin, segir að með þeim yrði náttúran skert að óþörfu. Forsvarsmenn Eden Mining taka ekki undir það og svara: „Fólkið sem mun búa í steyptu húsunum sem búin eru til úr sementi eða fólkið sem keyrir yfir steypta brú er líklega ósammála því að þessi framkvæmd sé að óþörfu.“ Ef Íslendingar vilji „bara þiggja en ekki leggja neitt af mörkum og ætlist til að allar námur og efnisflutningar fari fram í öðrum löndum á meðan við njótum afrakstursins þá kallast það grænþvottur og útflutningur á mengun“.
Krafa Landverndar kjánaleg
Í umsögn Landverndar segir m.a. að eingöngu yrði um fjárhagslegan ávinning framkvæmdaaðila að ræða en engan samfélagslegan ávinning „nema síður sé“. Í ljósi þess verði mat á umhverfisáhrifum að vera mjög ítarlegt til að auðvelda leyfisveitanda að taka upplýsta ákvörðun. Því verði Skipulagsstofnun að gera mun ríkari kröfur heldur en settar eru fram í drögum Eden Mining að matsáætlun.
„Skipulagsstofnun er hlutlaus opinber stofnun sem framfylgir lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og eiga allir að fá sömu meðferð,“ segir í svörum forsvarsmanna Eden Mining. „Að krefjast þess að Skipulagsstofnun setji einhverjar viðbótarkröfur á íslenskt fyrirtæki af því að það á fjárhagslegra hagsmuna að gæta (allir sem framkvæma umhverfismat eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta) er bæði kjánaleg krafa en að sama skapi alvarleg þar sem allir eru jafnir fyrir lögum og hinu opinbera.“