„Samherji hefur birt afsökunarbeiðni vegna framferðis stjórnenda og starfsmanna í tengslum við umfjöllun fjölmiðla um áðurgreint mál. Viðurkennt var að vikið var af braut. SFS telja mikilvægt að fyrirtækið axli ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum, stuðli að gagnsæjum starfsháttum og góðum samskiptum. Á þeim forsendum er unnið á vettvangi SFS og samtökin gera sömu kröfu til sinna félagsmanna.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein sem birtist í dag á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem enginn er þó skrifaður fyrir.
Ætla ekki að refsa Samherja
Í greininni segir að um nokkurt skeið hafi verið fjallað um ýmsa þætti er tengjast starfsemi, starfsmönnum og stjórnendum Samherja. Í fyrri yfirlýsingum SFS vegna þessara mála hafi afstaða samtakanna verið afdráttarlaus og í greininni segir að hún sé óbreytt. Í kjölfarið er vísað í tvær yfirlýsingar sem birtust á heimasíðu SFS, 14. nóvember og 19. nóvember 2019, í kjölfar umfjöllunar um starfsemi Samherja í Namibíu.
Einstakar ákvarðanir fyrirtækja geti gengið gegn því sem kveðið er á um í stefnu um samfélagsábyrgð. Það sé ekki ætlunin að SFS refsi hlutaðeigandi fyrirtæki.„ Í slíkum aðstæðum er stefnan einmitt mjög mikilvæg – hún er leiðarljós fyrirtækja aftur inn á rétta braut.“
Sögðu stjórnendur hafa gengið „of langt“
Samherji sendi frá sér yfirlýsingu um liðna helgi þar sem sagði að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“. Enginn var skrifaður fyrir yfirlýsingunni.
„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins, en ekki var útskýrt í frekari smáatriðum að hvaða leyti gengið hafi verið of langt eða nákvæmlega hverju verið væri að biðjast afsökunar á.
Í yfirlýsingunni sagði einnig að stjórnendum og starfsfólki Samherja hefði þótt umfjöllun og umræða um fyrirtækið á undanförnum árum „einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.“ Þegar svo sé – og „vegið að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi“ – geti reynst erfitt að bregðast ekki við.
Samherji vísaði til fjölmiðlaumfjöllunar um þau samskiptagögn fyrirtækisins sem Kjarninn og Stundin hafa undir höndum og fjallað um undanfarna viku í fréttum og fréttaskýringum. Fyrirtækið segir að „þau orð“ og „sú umræða sem þar var viðhöfð“ hafi verið „óheppileg“.
„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber,“ segir í yfirlýsingu Samherja, en fyrirtækið hafnaði því að svara spurningum Kjarnans um það sem kemur fram í gögnunum á þeim grundvelli að gögnunum hefði verið stolið.
Í svari sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á Lex, sendi fyrir hönd Samherja síðdegis fimmtudaginn 20. maí kom fram að fyrir lægi að þau gögn sem umfjöllun Kjarnans byggði á hefðu fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja.
Páll hefði kært innbrotið og meðferð gagnanna til lögreglu og það biði lögreglurannsóknar. „Hvorki Samherji hf. né fyrirsvarsmenn félagsins munu fjalla um inntak gagna sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti. Með því væri verið að ljá umfjöllun vægi sem hún á ekki skilið. Fyrirspurnum yðar verður því ekki svarað,“ sagði í svari lögmannsins.