Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að yfirlýsingar stjórnvalda og atvinnurekenda um að lítið sem ekkert svigrúm sé til launahækkana og viðvarana gegn því að „boginn verði spenntur of hátt“ séu eins ósvífnar og hægt sé að hugsa sér í ljósi þess sem gekk á í kórónuveirufaraldrinum. Þar hafi margt verka- og láglaunafólk misst vinnuna og þurft að komast af á atvinnuleysisbótum og sé því með skuldahala á eftir sér, þar sem allir viti að ekki sé hægt að reka heimili og fjölskyldu á atvinnuleysisbótum.
„Að nú stígi fram forsætisráðherra ogaðrir og segja að öll þurfi að sýna hófsemd, eftir að þau sem aldrei hafa sýnt hófsemd hafa enn minna sýnt hana núna en áður, og að þau sem hafa farið í gegnum mjög trámatíska upplifun í þessum faraldri eigi líka að axla þessa byrði, þessa ábyrgð, mér finnst þetta bara siðlaust og til marks um fyrringu og tengslaleysi,“ sagði Sólveig Anna í viðtalsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Sagðist Sólveig Anna jafnframt óboðlegt að segja við verka- og láglaunafólk, sem ofan á allt hafi horft upp á brostin loforð um þak á leiguverð, að það eigi að vera hófstillt og „trúa á þennan útópíska stöðugleika“ sem hljóti að koma einhvern tímann, svo lengi sem það fari aftur aftast í röðina. „Að segja þetta við fullorðið fólk að það sé ekki mikilvægt og ómissandi þó það sé það, að það eigi bara að fara aftur út í horn. Mér finnst það siðlaust og ég gæti notað harðari orð en það.“