Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að áætlun um losun hafta snúist að öllu leyti um að verja efnahagslegan stöðugleika og gengi krónunnar. Fjármagn sem kæmi út úr áætluninni, sem felur meðal annars í sér álagningu svokallaðs stöðuleikaskatts sem hefur ekki verið útskýrður að fullu, yrði ekki hugsað til þess að ráðstafa í framkvæmdir eða verða hluti útgjalda ríkissjóðs.
Forsætisráðherra sagði á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag að skatturinn ætti að skila hundruðum milljarða króna. Sigmundur Davíð segir að hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, séu algjörlega samstíga í málinu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Til greina kemur að framlengja vorþing til að klára málið
Þar segir forsætisráðherra einnig að hann sé bjartsýnn á að hægt verði að losa um eignir erlendra kröfuhafa nokkuð hratt. Það fari "þó eftir því hvernig menn laga sig að málinu." Til greina kemur að framlengja vorþing Alþingis, sem á örfáa starfsdaga eftir samkvæmt áætlun, til að frumvarp ríkisstjórnarinnar um álagningu stöðugleikaskatts nái fram að ganga.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks sem situr í þverpólitískri nefnd um losun hafta, er ekki jafn hrifinn af hugmyndum forsætisráðherra. Hann segir að fyriráætlanir um stöðugleikaskatt kalla á margra ára málaferli þar sem kröfuhafar muni leita réttar síns gagnvart slíkri skattlagningu, sem eigi sér ekkert fordæmi í veröldinni. Með skattlagningu sem þessari muni taka mörg ár að afnema fjármagnshöft.
Framsóknarþingmenn vita ekkert um málið
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að lykilþingmenn Framsóknarflokksins hafa ekki séð útfærslu á skattinum. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, sagðist ekki vera búin að sjá útfærslu á skattinum og viti því ekki hvort hann eigi einvörðungu að eiga við erlenda kröfuhafa. Málið sé einfaldlega að þeirri stærð að hún viti ekkert.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur heldur ekki séð útfærslu á stöðugleikaskattinum. Málið sé enn ekki komið til nefndar hans. "Sigmundur og Bjarni eru þeir einu sem vita eitthvað um málið."