Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að hækkun á stjórnarlaunum HB Granda, og fleiri fyrirtækjum, sé óæskileg og raunar afleit á allan hátt. Þetta sagði hann í svari við óundirbúinni fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á Alþingi nú í morgun.
Deilurnar á vinnumarkaði voru mörgum hugleiknar í þinginu í morgun. Katrín Jakobsdóttir sagðist hafa gríðarlegar áhyggjur af stöðu mála á vinnumarkaði. Hún nefndi mikla hækkun á launum stjórnarmanna í HB Granda sem dæmi, á sama tíma og starfsfólk hafi verið verðlaunað með íspinna. Þetta sagði Katrín vera „eins og úr skáldsögu eftir Halldór Laxnes. Hvert erum við komin ef þetta er umgjörð kjarabaráttunnar?“ Hún spurði Sigmund Davíð um það á hvaða aðgerðum væri von af hálfu stjórnvalda sem innlegg í kjaradeilurnar.
Sigmundur Davíð sagðist geta tekið undir allt sem Katrín hefði sagt og hann deildi áhyggjum hennar af stöðunni sem uppi er. Hann sagði þó að það væru sóknarfæri í stöðunni, og hún væri uppi vegna þess að „loksins“ þætti fólki eitthvað vera til skiptanna. Hann sagði ríkisstjórnina tilbúna til að legga ýmislegt á sig til að greiða fyrir málum, þótt ekki væri vilji til að „fóðra verðbólgusamninga.“ Hann sagði að stjórnvöld þyrftu hins vegar að sjá til lands í kjaraviðræðunum áður en hægt væri að grípa til aðgerða.
Framsóknarflokkurinn ætti að tryggja okkur kjöt
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, gerði kjaradeilur og ástandið á vinnumarkaði einnig að umfjöllunarefni. Verkföll væru hafin og fleiri yfirvofandi, og Guðmundur tók yfirvofandi kjötskort vegna verkfalla sérstaklega sem dæmi. „Ef Framsóknarflokkurinn er nú til einhvers, þá ætti hann nú allavega að tryggja okkur kjöt.“
Hann sagði stjórnendur stórra fyrirtækja senda stríðshanska út í samfélagið með hækkunum á stjórnarlaunum og að á vinnumarkaði ríki stríðsástand. „Það er mikil reiði í samfélaginu og það ríkir tortryggni. Mér finnst það að minsta kosti að hluta til vera áfellisdómur yfir ríkisstjórninni.“ Guðmundur ræddi um þjóðarsáttina og spurði Sigmund Davíð að því hvort þjóðarsáttarhugsunin væri ekki dauð. Það tók Sigmundur Davíð ekki undir og sagði slíka hugsun sérstaklega mikilvæga núna.