Formaður Miðflokksins ítrekaði í kvöld þá afstöðu sína að þingmenn hans sem viðhöfðu niðrandi orð um konur og ýmsa þingmenn á Klausturbar í nóvember 2018 væri þolendur í málinu, ekki gerendur.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist geta varið heilum sjónvarpsþætti í að kvarta yfir meðferð á sér og samflokksmönnum sínum í Klausturmálinu svokallaða. Hann vilji þó frekar ræða framtíðina en ekki „það að refsa þeim sem verða fyrir afbroti.“
Þetta kom fram í þættinum Forystusætið á RÚV í kvöld þar sem Sigmundur Davíð var viðmælandi.
Þegar spyrlar þáttarins spurðu um hvaða áhrif málið hefði haft á hann sagði Sigmundur Davíð að mál sem þetta hefðu gríðarlega mikil áhrif á þá einstaklinga sem fyrir því verða. „Ekki bara þá sem að lentu í brotinu beint, heldur líka önnur fórnarlömb glæpsins. Það er alveg ljóst að við þurfum að verja rétt einstaklinga og hlífa þeim við því að verða fyrir svona brotum enda leggjum við áherslu mikilvægi þess á að verja persónufrelsi og rétt einstaklinga á Íslandi.“
Sigmundur Davíð ítrekaði því þá afstöðu sína að hann og samflokksmenn hans sem létu ýmis niðrandi orð falla um nafngreint fólk, meðal annars aðra þingmenn, á Klausturbar í nóvember 2018, og voru teknir upp af gesti á barnum sem kom upptökunum til fjölmiðla, væru þolendur í Klausturmálinu, en ekki gerendur. Í sjónvarpsþætti á Hringbraut í síðasta mánuði sagði Sigmundur að honum þætti „ósanngjarnt ef að menn yrðu látnir gjalda fyrir það að vera þolendur þess sem síðar kom í ljós að var glæpur, skipulagður glæpur.“
Bára varð við því og eyddi upptökunum.
Siðanefnd sagði tvo þingmenn hafa brotið siðareglur
Siðanefnd Alþingis komst svo að þeirri niðurstöðu sumarið 2019 að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hefðu brotið siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember 2018.
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum að mati nefndarinnar.
Í áliti siðanefndar sagði að Bergþór og Gunnar Bragi hafi gerst brotlegir við siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á Klaustri bar. Siðanefnd fór yfir ummæli Bergþórs um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Lilja Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.
Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Bergþórs væru „öll af sömu rótinni sprottin“. Þau væru ósæmileg og í þeim fælist vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um var rætt. Einnig væru þau til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.
Nefndin fór einnig yfir ummæli Gunnars Braga um Albertínu og Lilju auk Ragnheiðar Runólfsdóttur, fyrrverandi sundkonu. Komist var að sömu niðurstöðu og í máli Bergþórs, að í ummælunum fælist vanvirðing í garð umræddra kvenna og þau væru til þess fallin að skaða ímynd Alþingis.
Forsætisnefnd Alþingis féllst á mat siðanefndar.
Gunnar Bragi ákvað að vera ekki í framboði fyrir komandi kosningar en Bergþór er oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.