Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, bað um að fá að taka til máls um fundarstjórn forseta á Alþingi í dag. Í ræðu sinni setti Sigurður Ingi fram fyrirspurn og ábendingu til forseta Alþingis og forsætisnefndar vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW air og hlutverk Samgöngustofu og Isavia í því falli. Umræddri skýrslu var lekið til fjölmiðla sem birtu ítarlegar fréttir úr henni í gær áður en trúnaði af henni var aflétt.
Ráðherrann spurði hvort einhverjar verklagsreglur væri um trúnað í þinginu og setti í kjölfarið fram þá ábendingu að ef skýrslur væru að leka út, „hvort það þurfi þá ekki að taka upp aðra verklagsreglu um að þær séu birtar um leið og þær berast þinginu þannig að aðrir geti líka tekið þátt í þeirri umræðu.“
Svört skýrsla
Skýrslan var kynnt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á mánudag og til stóð að hún yrði tekin fyrir á fundi umhverfis- og samgöngunefndar, sem bað um gerð hennar, í þessari viku. Það hefur frestast fram á þriðjudag í næstu viku og því er enn trúnaður á skýrslunni.
Kjarninn birti í gær, fyrstur allra miðla, ítarlega umfjöllun um skýrsluna. Skýrslan fer hörðum orðum um framgöngu Samgöngustofu á meðan að WOW air háði dauðastríð sitt, sagði stofnunina meðal annars hafa haft viðskiptalega hagsmuni flugfélagsins að leiðarljósi í ákvörðunartöku, hafa veitt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu misvísandi upplýsingar og ekki hafa beitt þeim úrræðum sem það bjó yfir og átti að gera.
Hægt er að lesa umfjöllun Kjarnans hér.
Sigurður Ingi sagði á þingi í dag að þrátt fyrir að á skýrslunni væri trúnaður virtist svo vera að einstakir þingmenn gætu farið í fjölmiðla og tjáð sig um hana. Þeir þingmenn hefðu þá væntanlega séð skýrsluna, en ráðherrann sagði að hún hefði enn ekki borist til síns ráðuneytis né undirstofnana þess sem fjallað er um í henni. „Ég get sagt sem samgönguráðherra að ég myndi gjarnan vilja tjá mig um þessa skýrslu því að ég hef séð hana á vinnslustigi. Ég hef ekki séð endann á henni en það var margt jákvætt sem þar var fjallað um stjórnsýslu samgönguráðuneytisins. Og mér þætti það mjög sérkennilegt að þingið skuli hafa það verklag uppi að það sé einhver trúnaður á skýrslu, sem virðist vera hægt að tala um af einstökum þingmönnum, en allir aðrir geta ekki tjáð sig um hana. Það getur ekki gagnast opinberri, skynsamari, gegnsærri umræðu í lýðræðissamfélagi að svo sé.
Hvatti ráðherra til að lesa fjölmiðla
Sá þingmaður sem hefur haft sig mest frammi í gagnrýni á stofnanir og ráðuneyti vegna skýrslunnar er Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og gagnrýni Sigurðar Inga var augljóslega beint að henni.
Hún kom í pontu á eftir Sigurði Inga og sagðist hafa tjáð sig um fréttir sem birtar hefðu verið um skýrsluna í fjölmiðlum. Þær hefðu verið ítarlegar. Sjálf sitji hún hvorki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd né umhverfis- og samgöngunefnd og hafi því ekki fengið skýrsluna þar. „Ég bara hvet ráðherra til að lesa fjölmiðla. Því þar er margt að finna sem ég held að hæstvirtur ráðherra ætti að líta á og taka alvarlega.“
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðunum að það væri ekki til fyrirmyndar að skýrslan hefði lekið út. Það væri hins vegar mjög sérkennileg staða sem við þingmenn væru komnir í ef þeir gætu ekki tjáð sig um það efni sem birtist í fjölmiðlunum hverju sinni. „Mér finnst það undarlegt að hæstvirtur ráðherra skuli hafna því að mæta í viðtal og ræða það efni sem hefur lekið. Síðan er það sjálfstætt verkefni að koma í veg fyrir að skýrslur leki yfirleitt. Þar held ég að enginn sé hafinn yfir grun.“