Birgir Þórarinsson sagði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, frá ákvörðun sinni að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn fyrir utan húsnæði Útvarps sögu eftir viðtal sem þingmennirnir veittu þar eftir kosningar. Í framhaldinu fóru þeir í bíltúr þar sem ákvörðunin var rædd frekar og vonaðist Sigmundur til þess að Birgir myndi endurskoða ákvörðun sína.
Sigmundur fór yfir brotthvarf Birgis úr Miðflokknum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og sagði hann Birgi hafa siglt undir fölsku flaggi í kosningabaráttunni. „Menn þurfa auðvitað að geta treyst því að frambjóðendur séu ekki að sigla undir fölsku flaggi og séu raunverulega hluti af þeim flokki sem viðkomandi kjósandi veitir atkvæði sitt og treysti fyrir atkvæði sínu,“ sagði Sigmundur.
Hann sagði eðlilegt að upp komi pólitískur ágreiningur og að fólk fari á milli flokka í kjölfar þess. „En það á augljóslega ekki við í þessu tilviki, það var ekki einu sinni búið að ná að halda þingflokksfund. Það er ekki góð framkoma gagnvart kjósendum,“ sagði Sigmundur, sem bað flokksmenn afsökunar. Þá bað hann einnig kjósendur flokksins afsökunar, sem ætluðu sé ekki að verja atkvæði sínu í að fjölga þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Vonar að kosningarnar verði endurteknar
Áhugavert verður, að mati Sigmundar, að fylgjast með pólitískum afleiðingum vistaskipta Birgis, ekki síst þar sem Birgir hafi iðulega gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn. „Stundum þótti manni nóg um jafnvel hvernig hann talaði í þingræðum í garð þess flokks og annarra. En allt í einu núna þá er breytt viðhorf til Sjálfstæðisflokksins sem hlýtur að þýða að Sjálfstæðisflokkurinn ætli einhvern veginn að laga sig að Birgi Þórarinssyni.“
Sigmundur sagðist einnig vona að kosningarnar verði endurteknar og öllum vafa þannig eytt. „Þá getur Birgir gefið kost á sér í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi.“
Í grein sinni í Morgunblaðinu í gær þar sem Birgir greindi frá ákvörðun sinni fullyrti hann að Erna Bjarnadóttir, fyrsti varaþingmaður flokksins í Suðurkjördæmi, styddi ákvörðunina. Sigmundur virtist ekki sannfærður. „Það þætti mér reyndar býsna sérstakt miðað við pólitíska stöðu Ernu Bjarnadóttur til þessa, og afstöðu til Sjálfstæðisflokksins. En það gerist margt skrýtið í pólitíkinni þessa dagana.“