Að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu er ekkert mál ef fólk kýs þá flokka sem vilja fara í slíkar breytingar að mati Sigmars Guðmundssonar, frambjóðanda Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Hann sagði þjóðina hafa kallað eftir breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu, það sýndu margar kannanir, og að ekki væri hægt að láta „þennan verðmætasta atvinnuveg okkar endalaust vera í einhverri spennitreyju ósættis og deilna.“
Sigmar var einn gesta í Silfrinu á RÚV í dag. Þar tókust frambjóðendur á um stefnu flokkanna fyrir komandi Alþingiskosningar sem og það sem hefur áunnist á kjörtímabilinu.
Viðreisn vill meðal annars að lítill hluti aflaheimilda verði boðinn út á hverju ári og að gerðir séu samningar til langs tíma svo stöðugleika í greininni verði ekki ógnað. „Við erum bara að tala um að afturkalla lítinn hluta kvótans á hverju ári og andlag þess er síðan notað til þess að ákvarða veiðigjald sem yrði þá talsvert hærra en það er í dag. Það er svo skrítið það er eins og það megi aldrei ræða um að kerfið eigi ekki bara að vera arðbært og gott heldur líka sanngjarnt og réttlátt,“ sagði Sigmar.
Sjálfbært og arðsamt kerfi
Næst til að taka til máls á eftir Sigmari var Diljá Mist Einarsdóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún benti á það að sjávarútvegskerfið á Íslandi væri það eina í OECD sem leggur meira til samneyslunnar en það fær í styrki frá ríkinu og að fyrirkomulag veiðigjalda væri markaðstengt, því það er tengt afkomu fyrirtækjanna.
Þá sagði hún önnur ríki horfa til íslenska kerfisins. „Við erum búin að koma á fót kerfi sem ríki annars staðar í heiminum líta til að miklu leyti af því að við erum bæði búin að koma upp arðsömum og sjálfbærum veiðum, sem er ólíkt því sem áður var.“
Álag á stærstu fyrirtækin
Kristrún Frostadóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, sagði að hægt væri að koma í veg fyrir eignasamþjöppun og fjármagnað önnur verkefni á sjálfbæran hátt með breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Að hennar mati þarf þó að vanda til verka.
„Í Samfylkingunni höfum við sagt að við viljum að það sé tekið almennilegt samtal og farið í skoðun á því hvort við eigum að fara þessa útboðsleið, að fá markaðsgjald fyrir auðlindina. Við vitum alveg að þetta mun ekki gerast á fyrsta vetri ríkisstjórnarinnar,“ Sagði Kristrún. Til að byrja með ætli flokkurinn að setja álag á stærstu útgerðir landsins til að fá meira út úr veiðigjaldinu.
Vill bregðast við „óhóflegri stærð auðhringa“
„Að sama fyrirtæki eigi alla virðiskeðjuna og geti stjórnað því hvar hagnaðurinn er tekinn alveg frá því að fiskurinn er veiddur alveg þangað til að hann er borinn fram í eldhúsi einhvers staðar úti í heimi, þetta er alveg fráleitt að við látum þetta viðgangast,“ sagði Gunnar Smári Egilsson, frambjóðandi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Hann sagði flokkinn annars vegar vilja breyta kerfinu til þess bregðast við „óhóflegri stærð auðhringa“ sem hefðu allt of mikil tök á þjóðfélaginu að hans mati. Hins vegar sagði hann flokkinn vilja hlusta á þjóðina sem sé ósátt við kerfið.
„Þjóðin lifir inni í þessu kerfi og veit að þetta er slæmt kerfi. Við viljum hlusta á það og við höfum lagt til að það verði til fiskiþing sem að marki stefnu til lengri tíma. Þvi þetta er sameign þjóðarinnar og þjóðin á að marka stefnu til lengri tíma. Til skemmri tíma leggjum við til að kvótakerfið verði aflagt og tekið verði upp dagakerfi,„ sagði Gunnar Smári og bætti því við að Færeyingar hefðu notað slíkt kerfi með góðum árangri.