Sjö meðlimum í Svíþjóðardemókrötum, þriðja stærsta flokknum á sænska þinginu, hefur verið vikið úr flokkinum fyrir hægriöfgar. Meðal þeirra sem voru reknir eru Gustav Kasselstrand og William Hahne, forkólfar í ungliðahreyfingu flokksins. Félaganefnd flokksins hefur haft 24 manns til skoðunar undanfarinn mánuð.
Mattias Karlsson, þingsflokksformaður Svíðþjóðardemókrata, hefur látið hafa eftir sér að Kasselstrand og Hahne hafi átt í samstarfi með öfgaflokkum utan Svíþjóðar en tvímenningarnir neita öllum ásökunum.
„Félaganefndin er aðeins að fylgja skipunum Karlssonar. Þetta er hópur strengjabrúða,“ sagði Kasselstrand við TT-fréttaveituna í síðdegis í dag eftir að niðurstaða nefndarinnar var ljós. Í morgun höfðu félagarnir sagst ætla að segja af sér formennsku og varaformennsku í ungliðahreyfingunni.
Samtals var sjö manns vikið úr flokknum í dag en nöfn þeirra Kasselstrands og Hahne aðeins gefin upp. Á meðan rannsókn flokksins stóð höfðu „sex eða sjö“ meðlimir skilað inn flokksskírteini sínu, að sögn Richard Jomshof, flokksritara. „Allir meðlimirnir höfðu sannarlega og augljós tengsl við öfgaöfl,“ sagði Jomshof.
Þeir Kasselstrand og Hahne hafa þegar lýst yfir stuðningi við formannsefni í ungliðahreyfingunni. Það er Jessica Ohlson sem er lögfræðingur og pólitískur aðstoðarmaður fyrir Svíþjóðardemókrata á sænska þinginu.
Glada ändå: @gustavkassel, @William_Hahne och @jesohlson. pic.twitter.com/txRfCcoUw6
— Niklas Svensson (@niklassvensson) April 27, 2015
Svíþjóðardemókratar hlutu 12,9 prósent atkvæða í þingkosningum síðasta haust og er nú þriðji stærsti flokkurinn á sænska þinginu með 49 þingmenn af 349. Flokkinn má staðsetja yst á hægri væng sænskra stjórnmála. Hann aðhyllist sænska þjóðernishyggju, félagslega íhaldssemi og hefur talað gegn innflytjendum.
Mesti vöxtur fylgis flokksins hefur verið undanfarin tíu ár undir forystu formannsins Jimmie Åkesson, þó hreyfingin hafi verið stofnuð árið 1988. Flokkurinn var fyrst kjörinn á þing árið 2010 og bætti við þingmönnum í kosningunum í september í fyrra.
Þá sitja tveir svíþjóðardemókratar á Evrópuþinginu eftir að flokkurinn fékk 9,7 prósent atkvæða í Evrópuþingskosningunum 2014. Á Evrópuþinginu hafa Svíþjóðardemókratar gengið í Evrópu frelsis og lýðræðis, fylkingu evrópuskeptískra flokka.
Flokksformaðurinn Jimmie Åkesson er þingmaður Svía á Evrópuþinginu. Mynd: EPA