Börn eru að meðaltali 17,5 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla og fæst sveitarfélaganna 69 tryggja börnum leikskólapláss þegar þau verða 12 mánaða, það er eftir að hefðbundnu fæðingarorlofi lýkur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu BSRB - heildarsamtaka stéttarfélaga starfsfólks í almannaþjónustu. Munurinn er talsverður milli sveitarfélaga en meðalaldurinn er talsvert lægri en árið 2017, þegar meðalaldur barna við inntöku á leikskóla var 20 mánuðir.
Markmið skýrslunnar er að varpa ljósi á stöðu leikskólavistunar ungra barna á Íslandi og atvinnuþátttöku foreldra. Niðurstöðurnar byggja á niðurstöðum könnunar sem samtökin lögðu fyrir sveitarfélög með rafrænum hætti í febrúar 2022 og gögnum frá Hagstofu Íslands.
Um sjö prósent barna komast að á leikskóla að loknu fæðingarorlofi eða fyrr, 27 prósent komast inn á bilinu 12,5 til 18 mánaða og 66 prósent á bilinu 18,5 til 24 mánaða.
Umönnunarbilið mest á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum
Umönnunarbilið, það er bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, er misjafnt eftir landshlutum en er að jafnaði um fimm og hálfur mánuður á landinu öllu. Bilið er minnst, um eða innan við mánuður á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum, Austurlandi og Vesturlandi. Umönnunarbilið er 4 mánuðir á Norðurlandi eystra, tæpir 5 á Suðurlandi, 6 á höfuðborgarsvæðinu og 9 mánuðir á Suðurnesjum.
„Núverandi skipan leikskólamála takmarkar möguleika foreldra til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi,“ segir í skýrslunni, þar sem er jafnframt bent á að ekki hefur verið gripið til neinna aðgerða af hálfu ríkisvaldsins til þess að tryggja 12 mánaða gömlum börnum stuðning við umönnun og menntun ungra barna sinna á borð við leikskóla og því sé staða barna og foreldra afar misjöfn eftir búsetu. „Mörg sveitarfélög hafa þó sett sér skýr markmið, gripið til aðgerða og minnkað umönnunarbilið umtalsvert frá árinu 2017, sem er jákvætt,“ segir í skýrslunni.
66 prósent barna komast inn á bilinu eins og hálfs árs til tveggja ára
Þegar horft er á fjölda sveitarfélaga fer hlutfallið í um 50% við 12 mánaða aldur og er komið í 80% við 15 mánaða aldur. Ljóst er að fleiri af minni sveitarfélögum taka inn yngri börn, því þegar horft er til fjölda barna á leikskólaaldri er hlutfallið aðeins komið í 40 prósent við 18,5 mánaða aldur og svo 90 prósent við 19 mánaða aldur.
Ef horft er á fjölda þeirra barna sem komast inn á ákveðnum aldri komast flest börn inn 19 mánaða og næstflest 15 mánaða. Þá eru nokkuð stórir hópar sem komast inn 22 mánaða, 19 mánaða og 12 mánaða.
Ef aldur barnanna við inntöku er flokkaður í fjóra hópa má sjá að 2 prósent barna komast inn yngri en 12 mánaða, 5 prósent komast inn við 12 mánaða aldur, 27 prósent komast inn á bilinu 12,5 til 18 mánaða en stærsti hópurinn, eða 66 prósent, komast ekki að í leikskóla fyrr en á bilinu 18,5 til 24 mánaða. „Það liggur því fyrir að ansi stór hópur barna kemst ekki inn fyrr en töluverður tími er liðinn frá lokum fæðingarorlofs, með tilheyrandi áhrifum á atvinnuþátttöku foreldra og velferð og þroska barnsins,“ segir í skýrslunni.
Ansi misjafnt er eftir landsvæðum hvenær börn komast inn á leikskóla og má sjá mikinn mun á stórum svæðum á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og svæðunum hér í kring, Suðurnesjum og Suðurlandi, þar sem börn eru almennt eldri þegar þau komast inn.
Fæst barna sem fæddust í fyrra komin inn á leikskóla
Líkt og fyrr segir er meðalaldur barna þegar þau komast inn á leikskóla á vegum sveitarfélags miðað við könnun BSRB 17,5 mánaða. Er það nokkur breyting frá fyrri skýrslu BSRB 2017 þar sem meðalaldurinn var rúmlega 20 mánaða.
Tekist hefur að stytta ummönnunarbilið, meðal annars með lengingu fæðingarorlofs, en það var níu mánuði við útgáfu síðustu skýrslu. Leikskólaplássum hefur einnig fjölgað en fram kemur í skýrslunni að dreifing á inntöku barna er mikil, allt frá níu mánaða aldri upp í 24 mánaða og þá er nokkuð stór hópur sem kemst inn eldri en 18,5 mánaða.
Í skýrslunni er einnig bent á að árgangurinn sem fæddist árið 2021 er afar stór, eða sá fjórði stærsti frá upphafi. „Fæst þeirra barna eru komin inn á leikskóla þegar þetta er ritað, og verður áhugavert að sjá hvernig sveitarfélögunum tekst að bregðast við þessari fjölgun í fæðingum barna,“ segir í skýrslunni.
Hvetja öll framboð til að brúa bilið
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga hvetur BSRB öll framboð til að brúa bilið með því að setja í forgang rétt barna til leikskólapláss strax að loknu fæðingarorlofi foreldra. Auk þess kallar bandalagið eftir því að sá réttur verði lögfestur á Alþingi hið fyrsta með tilheyrandi fjármögnun og veita þannig barnafjölskyldum hér á landi sambærilegan stuðning og á hinum Norðurlöndunum.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir ummönnunarbilið hafa neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur eru líklegri til að minnka við sig vinnu en karlar eða lengja fæðingarorlof.
„Við hjá BSRB gerum þá kröfu að ríki og sveitarfélög grípi til aðgerða til að öllum börnum verði tryggð leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra sama hvar þau búa á landinu.” er haft eftir Sonju í tilkynningu frá BSRB.
Leikskólamál hafa verið í umræðunni í aðdraganda sveitarstjórnakosninga, ekki síst í Reykjavík, þar sem aðgerðaráætlunin Brúum bilið hefur verið í gildi frá nóvember 2018. Áætlunin miðar að því að fjölga leikskólaplássum svo bjóða megi foreldrum leikskólavist þegar fæðingarorlofi lýkur og barn þeirra er 12 mánaða. Í tilkynningu sem borgin sendi frá sér í mars kom fram að byrjað verði að taka á móti 12 mánaða börnum í leikskóla borgarinnar í haust.