Netsvindli hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu misserum og reglulega berast tilkynningar af nýrri tegund svikapósta í umferð sem fólk ber að varast. Það er engin tilviljun að tilkynningarnar séu orðnar svona margar og fréttirnar sömuleiðis, fjöldi tilvika sem tilkynnt voru til CERT-IS, netöryggissveitar Fjarskiptastofu, nam 598 á síðasta ári samanborið við 266 árið áður. Fjölgun varð í nánast öllum tegundum tilkynninga en flestar snúast tilkynningarnar að svindli. Á síðasta ári bárust 446 tilkynningar til CERT-IS vegna svindls en árið áður voru þær 181 talsins.
Það er því sannarlega margt að varast á netinu en það er einnig margt hægt að gera til þess að auka netöryggi sitt og stunda ábyrga nethegðun. Kjarninn hafði samband við Guðmund Arnar Sigmundsson, framkvæmdastjóra CERT-IS til þess að ræða til hvaða ráðstafana fólk getur gripið á netinu og hann gaf mörg gagnleg ráð í þeim efnum.
Notaðu lengri, flóknari og einstök lykilorð
Eitt elsta og sígildasta ráðið í nethegðun er það að nota löng og flókin lykilorð sem erfitt er að giska á. Til þess að lágmarka hætti á að einhver komist inn á aðganginn þinn er mælt með því að nota einstök lykilorð fyrir hvern og einn aðgang sem þú notar á netinu. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að gagnaleki á einum stað hafi áhrif á öryggi annarra reikninga en reglulega verða stórir gagnalekar þar sem notendaupplýsingar fjölda notenda verða aðgengilegar.
Það þarf ekki nema einn gagnaleka til þess að stefna öryggi reikninga þess sem notar aðeins eitt lykilorð í hættu. „Það eru alltaf að koma gagnalekar hér og þar,“ segir Guðmundur og nefnir hugbúnaðarfyrirtækið Adobe sem dæmi en það býr til dæmis forrit á borð við Photoshop og Lightroom. „Það var gagnaleki hjá þeim fyrir nokkrum árum. Þau lykilorð eru komin út og allir geta náð í þau sem hafa einhvern áhuga á þessum bransa og þar af leiðandi er lykilorðið þitt orðið ónýtt.“
Settu upp tveggja þátta (eða fjölþátta) auðkenningu
Hægt er að setja upp svokallaða tveggja þátta auðkenningu sem er í raun og veru auka þrep í innskráningu. Nokkrar tegundir tveggja þátta auðkenningar en algengt er að stilla tveggja þátta auðkenningu þannig að notendur fái kóða í sms-skilaboðum eftir að þeir eru búnir að skrá sig inn með notendanafni og lykilorði eða þá að notendur sæki kóða úr smáforritum á borð við Google Authenticator eða Duo.
Þetta getur komið í veg fyrir að einhver komist inn á reikning manns í kjölfar gagnaleka eða vegna þess að lykilorð er ekki nógu sterkt. „Líkurnar á því að einhver nái að yfirtaka tvær boðleiðir eru bara stjarnfræðilega miklu minni en að einhver nái að troða sér inn í eina boðleið. Svo er hægt að bæta við boðleiðum. Það að virkja fjölþáttakenningu er rosalega mikilvægt,“ segir Guðmundur Arnar um þetta öryggisatriði.
Notaðu lykilorðabanka
Til þessa að auðvelda notkun á löngum, flóknum og einstökum lykilorðum er hægt að nýta sér þjónustu svokallaðra lykilorðabanka (e. Password Manager).
„Það er í rauninni stór peningahvelfing á netinu sem geymir öll lykilorðin þín og ekki nóg með það, heldur býr hún til gífurlega flókin, löng lykilorð í hvert skipti sem þú býrð til aðgang inn á nýja síðu. Þessi lykilorð eru svo löng og flókin að það er ekki í mannlegu valdi að muna þau en þú þarft ekki að muna þau. Þú þarft bara að muna eitt „ríkislykilorð“ inn í lykilorðabankann,“ segir Guðmundur Arnar um lykilorðabanka.
Hann bætir því við að nú sé hægt að sækja viðbætur (e. plug-ins) í flestum vöfrum frá lykilorðabönkunum sem bjóði upp á frekar saumlausa notendaupplifun. Best sé svo að virkja tveggja þátta auðkenningu fyrir innskráningu í lykilorðabankann.
Ekki opna hlekki
Að mati Guðmundar Arnars er það „tímalaust ráð“ að mæla gegn því að fólk opni hlekki sem það þekkir ekki. „Hlekkir sem koma jafnvel frá fólki sem þú treystir. Ef þú ert í vafa, ekki ýta á þá. Þeir sem eru þokkalega tölvulæsir, þeir geta svo sem alveg lesið hlekkina eða séð hvert þeir vísa og metið það hvort þeir treysti því eða ekki. En svona heilt yfir ekki ýta á hlekki,“ segir hann.
Á vefsíðunni netöryggi.is, sem haldið er úti af Fjarskiptastofu, segir að ein algengasta dreifileið vírusa og annarrar sambærilegrar óværu séu viðhengi og hlekkir. Viðhengi geti fylgt tölvupóstum sem innihaldi vírusa og það sama á við um hlekki. Á bak við hlekki sem sendir eru í skilaboðum á netinu eða í tölvupóstum geti leynst vírusar. „Varastu að opna slík viðhengi eða smella á hlekki nema þú þekkir sendandann og eigir von á gögnum frá honum. Mælt er með að setja upp góða endabúnaðsvörn (vírusvörn) á tölvunni þinni og halda henni uppfærðri eins og öllum hugbúnaði,“ segir á síðunni.
Kannaðu skrár
Til eru þjónustur á netinu sem kanna það hvort skrá innihaldi einhverja vírusa, síður eins og Norton og VirusTotal. „Ef það er einhver skrá sem þú treystir ekki þá geturðu bara hent henni inn á VirusTotal. Þá ertu reyndar að gefa VirusTotal afrit af skránni, þannig ef þetta eru einhver persónuleg gögn þá mæli ég gegn þessu en ef það er einhver að senda þér einhverja skrá sem er hvort eð er á netinu og allir geta séð þá er fínt að henda henni þarna inn og síðan segir þér hvort hún sé laus við vírusa og ef það er vírus í henni þá segir hún þér nákvæmlega hvernig hann er,“ bendir Guðmundur á.
Hann segir einnig að á netinu séu til síður sem kanni hvort í lagi sé að opna hlekki eða ekki, ein slík er síðan urlscan.io. Einnig sé hægt að Google-a hlekki til þess að afla upplýsinga um hvað leynist að baki þeim.
Tortryggni í samskiptum á netinu
„Svo er það bara gamla góða tortryggnin, í alvöru. Ef einhver, meira að segja einhver nátengdur þér, nálgast þig í gegnum spjallrásir eða tölvupóst og biður um meiriháttar millifærslu eða eitthvað fjármálatengt, þá er fínt að vera tortrygginn, taka upp símann og hringja í viðkomandi og spyrja einfaldlega: „Varstu að biðja um þetta?“,“ segir Guðmundur Arnar.
Hann segir að svikapóstar séu orðnir „fágaðri“ en áður. Þýðingartól séu orðin betri og sjálfvirkari en áður og nú sé minna mál að laga svikapóst að viðtakandanum. Svikapóstarnir séu því orðnir mun trúverðugri en áður.
Ekki senda fjármála- eða persónugreinanlegar upplýsingar
Guðmundur Arnar mælir sterklega gegn því að fólk sendi upplýsingar sem geta verið notaðar til að taka út fjármuni, upplýsingar á borð við kreditkortanúmer. Það sama gildir um persónugreinanlegar upplýsingar líkt og myndir af vegabréfum eða ökuskírteinum. Þegar öllu er á botninn hvolft snúast netglæpir fyrst og fremst um peninga, bendir hann á.
„Það eru náttúrlega allir að reyna að fá þig til að millifæra peninga, allt annað bliknar í samanburði við það. Hitt er auðkennisþjófnaður, þar sem er verið að reyna að stela persónueinkennum þínum. Þar er reynt að fá fólk til að taka mynd af kreditkortinu sínu eða ökuskírteini eða vegabréfi og svo gengur það kaupum og sölum erlendis og getur valdið fólki fullt af vandræðum og skaða þar sem glæpir eru framkvæmdir í þeirra nafni til að fela slóð. Allt í einu ertu kominn á einhvern svartan lista einhvers staðar og veist ekki einu sinni af því.“
Ef þú þarft nauðsynlega að senda slíkar upplýsingar yfir netið segir Guðmundur það vera gott ráð að hringja í viðkomandi til að athuga hvort þú sért ekki örugglega að senda upplýsingarnar á rétta manneskju.