Nýlegar fjárhagsáætlanir fyrir Ólympíuleikana í Tókíó sýna að skipuleggjendur leikanna eru enn að gera ráð fyrir því að viðburðir á leikunum verði þéttsetnir áhorfendum, þrátt fyrir að alls óvíst sé hvort það geti mögulega orðið raunin.
Um tvö ár eru síðan að miðar á viðburði Ólympíuleikanna fóru í sölu, að mestu til almennings í Japan, og löngu er búið að verja ágóða miðasölunnar til þess að skipuleggja leikana.
Í nýrri úttekt Financial Times kemur fram að borgaryfirvöld í Tókíó hafi skuldbundið sig til þess að endurgreiða miðana ef til þess þyrfti að koma og að kostnaðurinn borgarinnar við það, ef leikarnir fara fram bak við luktar dyr, muni nema um 800 milljónum Bandaríkjadala. Það er jafnvirði rúmlega 97 milljarða íslenskra króna.
Ríkisstjórn Japans er ákveðin í að halda leikana, þrátt fyrir að andstaða almennings hafi verið allmikil, en til stendur að setningarathöfn þeirra fari fram 23. júlí.
Yoshihide Suga forsætisráðherra landsins sagði við fréttamenn á G7 fundinum í Bretlandi á dögunum að fjöldi áhorfenda myndi taka mið af stöðu COVID-19 faraldursins í landinu og sömu viðmið um áhorfendafjölda yrðu á Ólympíuleikunum og á öðrum íþróttaviðburðum í landinu.
Læknar og sóttvarnasérfræðingar hafa að undanförnu talað gegn því að áhorfendum verði hleypt inn á viðburði Ólympíuleikanna. Formaður læknasamtakanna í Tókíó sagði nýlega að ef til stæði að halda leikana væri það eini valmöguleikinn að gera það án nokkurra áhorfenda.
Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki verið kveðinn niður í Japan og hundruð smita greinast í Tókíó á degi hverjum, þrátt fyrir að faraldursbylgja sem reis hátt í maí sé í rénun. Á sama tíma er ekki búið að fullbólusetja nema tæp 6 prósent Japana og innan við 10 prósent landsmanna til viðbótar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.
Anton Sveinn McKee sundmaður er eini íslenski íþróttamaðurinn sem hefur unnið sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í sumar.