Áhugasamir kaupendur hafa lýst yfir áhuga á að kaupa dótturfélag Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn. Umræddir aðilar, sem eru ekki nafngreindir, gáfu sig fram við fyrirtækjaþjónustu Kviku banka eftir að að Skeljungur tilkynnti til Kauphallar Íslands 24. mars síðastliðinn að félagið væri að „meta framtíðarkosti eignarhalds á P/F Magn, dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum.“
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Skeljungur sendi til Kauphallar Íslands.
Í ljósi þessa áhuga hefur Skeljungur ákveðið að birta samantekt úr áætlun P/F Magn fyrir árið 2021 „svo fjárfestar hafi aðgang að framangreindum upplýsingum á jafnræðisgrunni.“
Í samantektinni kemur fram að Heildartekjur P/F Magn vegna rekstrarársins 2020 námu 15.560 milljónum króna og heildartekjur samstæðunnar voru 41.203 milljónir króna. EBITDA P/F Magn á árinu 2020 nam 1.509 milljónum króna en EBITDA samstæðunnar nam 2.676 milljónum króna.
Ætluðu að fjármagna skuldsetta yfirtöku
Hópur fjárfesta, undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur og undir merkjum Strengs, reyndi að taka yfir Skeljung í fyrra. Hópurinn gerði yfirtökutilboð sem í fólst að hann var tilbúinn að greiða um tíu milljarða króna fyrir hlutafé annarra í félaginu. Hópurinn ætlaði að greiða eitthvað eigin fé en meginþorri upphæðarinnar myndi koma að láni frá tveimur kerfislega mikilvægum bönkum, Íslandsbanka og Arion banka.
Strengur tryggði sér meirihluta
Á meðal þeirra eigna sem hópurinn hafði hug á að selja ef yfirtökutilboðinu yrði tekið var P/F Magn, sem rekur ellefu smásölu- og bensínstöðvar og tvær birgðastöðvar í Færeyjum auk þess sem fyrirtækið dreifir eldsneyti til fyrirtækja, verktaka og sjávarútvegs.
Yfirtökutilboðinu var hafnað af þorra annarra hluthafa, sem eru að uppistöðu íslenskir lífeyrissjóðir.
Það skipti þó ekki miklu máli. Næstu daga eftir að yfirtökutilboðinu var hafnað með afgerandi hætti þá bætti Strengur við eignarhlut sinn í Skeljungi með kaupum á markaði og á nú rétt yfir helming hlutafjár.