Nokkur umræða er hafin erlendis um skilgreiningu á því að vera „fullbólusett/ur“ gegn COVID-19. Ertu fullbólusett með tveimur sprautum eða þegar þú hefur fengið örvunarskammt?
Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis hefur skilgreiningin ekki breyst – að minnsta kosti ennþá. Þannig að manneskja sem hefur lokið bólusetningu með tveimur sprautum með Pfizer, svo dæmi sé tekið, er talin fullbólusett. Örvunarbólusetning er einmitt það, segir í svari embættisins, örvun ofan á fulla bólusetningu.
„Hins vegar er það svo að það samevrópska kerfi sem notað er um bólusetningarpassa (t.d. vegna ferðlaga) byggir á skilgreiningu sem aðeins náði til eins árs,“ segir í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans. „Því gæti farið svo að þeirri skilgreiningu verði breytt. Við höfum hins vegar ekki heyrt af slíkum hugmyndum.“
Faraldur COVID-19 hefur náð miklum hæðum í Evrópu ennþá einu sinni og hertar aðgerðir boðaðar víða. Stjórnvöld í Austurríki hafa til dæmis þegar gripið til útgöngubanns (lockdown) og hafa auk þess ákveðið að frá og með febrúar á næsta ári verði allir skyldaðir til bólusetningar.
Örvunarbólusetning, þ.e. að gefa þriðja skammtinn af bóluefni, er hafin í mörgum Evrópuríkjum og litið er svo á að hún gæti orðið leiðin út úr faraldrinum.
En þetta gæti þýtt að skilgreining á „fullri bólusetningu“ ætti eftir að breytast. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í síðustu viku að tvær sprautur væru ekki lengur nægjanlegar til að ná fullri bólusetningu. Til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur í landinu á ný, sem myndi hafa hertar aðgerðir í för með sér, væri þriðji skammturinn – örvunarskammturinn – nauðsynlegur. „Með tímanum dregur úr vernd tveggja skammta,“ sagði hann á blaðamannafundi fyrir um viku. Til stendur að gefa um 10 milljónum Breta örvunarbólusetningu fyrir jól. Byrjað var að gefa fólki yfir fimmtugu og viðkvæmum hópum slíka sprautu í september.
Samkvæmt frétt AFP hafa um 3,7 prósent Evrópubúa fengið örvunarskammt. Ísland leiðir örvunarbólusetningar álfunnar, segir enn fremur í fréttinni. Samkvæmt því sem fram kemur á covid.is hafa tæplega 100 þúsund einstaklingar fengið örvunar- eða viðbótarskammt af bóluefni. Ákveðið var nýverið að öllum sextán ára og eldri stæði slíkt til boða um 5-6 mánuðum eftir að önnur sprauta var gefin.