Árin 2019 og 2020 brunnu um 5,8 milljónir hektara lands í gríðarlegum skógareldum í kjölfar mikilla þurrka í Ástralíu. Hundruð þúsunda dýra drápust í eldunum, aldagamlir skógar urðu að engu og fjöldi fólks missti heimili sín. En þetta voru ekki einu áhrif eldanna miklu. Svakalegur reykur fór út í andrúmsloftið sem olli því að hitastig hækkaði staðbundið um þrjár gráður. Á heimsvísu olli þetta um 0,7 gráðu hækkun hitastigs í lægri hluta heiðhvolfsins. Þetta er mesta hækkun hita vegna náttúruhamfara sem orðið hefur frá því að hamfaragos varð í Pinatubo-eldfjallinu á Filippseyjum árið 1991.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn sem birt var í vísindatímaritinu Scientific Reports. Þar segir að hitastigshækkunin hafi varað í fjóra mánuði.
Heiðhvolfið er sá hluti lofthjúps jarðar sem er í 10-50 km hæð frá jörðu. Venjulega komast reykagnir ekki þangað en þar sem skógareldarnir í Ástralíu voru svo miklir og stóðu svo lengi þá náði reykurinn í óvenju mikla hæð og söfnuðust þar í reykský. Í slíkum skýjum er mikið magn af kolefni sem bindur hita. Þess vegna lyftast þau upp í neðri hluta heiðhvolfsins eins og loftbelgur, segir einn höfunda rannsóknarinnar, Jim Haywood, við vísindatímaritið Nature.
Til rannsóknarinnar notuðu Haywood og félagar m.a. gögn úr gervitunglum sem sveimað hafa um heimskautin. Gögnin, sem m.a. fólu í sér dreifingu og magn reykagna í heiðhvolfinu, voru svo sett inn í reiknilíkön. Niðurstaðan styður rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar á hækkun hitastigs nær jörðinni vegna eldanna.
Reiknilíkönin benda til að vegna efnahvarfa milli reyksins og ósons í andrúmsloftinu hafi skógareldarnir stækkað gatið í ósonlaginu sem er yfir suðurpólnum.
„Ári áður en eldarnir hófust var lítið gat á ósonlaginu,“ segir Haywood við Nature. „Árið 2020 var okkur nokkuð brugðið því það var komið mjög, mjög djúpt gat í ósonlagið.“ Stækkunin varði í fimm mánuði.
Eftir því sem ósonlagið er þynnra því meira af útfjólubláum geislum sólar ná til jarðar. Slík geislun veldur skaða á öllu lífríki, þar á meðal á heilsu fólks.
Haywood segir að það sé enn ekki fullljóst hvernig samspil reyks og ósons sé. Það skýrist af því að fjölmörg efni geta verið í reyk og af misjöfnu magni. Hann segir mikilvægt að rannsaka þetta frekar vegna þess að vísindamenn telja að með frekari loftslagsbreytingum af mannavöldum muni skógareldar verða tíðari.