Bílaauglýsingar í Frakklandi munu breytast talsvert á næstu mánuðum, en ný reglugerð sem ráðgert er að taki þar gildi í mars mun skylda bílaframleiðendur til þess að hvetja fólk til þess að ferðast með öðrum hætti en á sínum einkabíl í öllum bílaauglýsingum.
Nánar tiltekið geta þeir sem eru að auglýsa bíla valið á milli þriggja skilaboða sem eiga, að kröfu yfirvalda, að fylgja með bílaauglýsingum; „íhugið að sameinast í bíl“, „fyrir styttri ferðir, veldu göngu eða hjólreiðar“ eða „notaðu almenningssamgöngur fyrir daglegar ferðir“.
Þetta mun eiga við allar bílaauglýsingar, óháð því hvort þær birtast í útvarpi, sjónvarpi, í prentmiðlum, á netinu, í kvikmyndahúsum eða á umhverfisskiltum.
Ef auglýsendur fara ekki eftir reglugerðinni bíður þeirra sekt sem numið getur allt að 50 þúsund evrum, jafnvirði um 7 milljóna íslenskra króna, samkvæmt því sem segir í frétt bandaríska blaðsins Washington Post um þetta mál.
Orkuskipti snúist ekki bara um rafmótora
Barbara Pompili, ráðherra vistvænna umbreytinga í frönsku ríkisstjórninni, sagði um þessar breytingar í færslu á Twitter á dögunum að orkuskipti í samgöngum snerust ekki einungis um að „skipta yfir í rafmótor“, heldur einnig um að nota almenningssamgöngur eða reiðhjól þegar það væri mögulegt.
Svipaðar hömlur og nú er verið að setja á bílaauglýsingar eru þegar í gildi í Frakklandi þegar kemur að matarauglýsingum, en þeim þurfa að fylgja skilaboð til neytenda um að borða minna af draslfæði og meira af grænmeti og ávöxtum.
Hin nýja reglugerð er sögð sett á í kjölfar áralangrar baráttu frá náttúruverndarsamtökum, sem hafa krafist þess að bílaauglýsingar verði bannaðar með öllu í landinu.
Samkvæmt reglugerðinni sem tekur gildi í mars verða losunartölur bíla einnig að fylgja með öllum bílaauglýsingum og frá og með árinu 2028 verður bannað að auglýsa þá bíla sem mest losa í Frakklandi.
Talsmenn bílaframleiðenda hafa tjáð sig um fyrirhugaðar breytingar nú í upphafi árs og hafa viðbrögðin verið blendin.
Æðsti yfirmaður Hyundai í Frakklandi sagði við AFP-fréttaveituna að fyrirtækið myndi aðlaga sig að þessu, en kvartaði þó undan því að þessi aðgerð „setti smánarblett á bíla“, auk þess sem hann lýsti yfir vonbrigðum með að reglurnar ættu einnig að gilda um auglýsingar á rafbílum, á sama tíma og frönsk stjórnvöld væru að búa til hvata til að auka hlut þeirra í nýskráningum.