Birtingarmynd efnahagsþvingana og refsiaðgerða vegna innrásar Rússa í Úkraínu er ýmis konar. Bandarísk stórfyrirtæki hafa verið gagnrýnd fyrir þögn sína og tregðu til að bregðast við innrásinni. McDonalds, sem opnaði fyrst í Rússlandi fyrir þrjátíu árum, rauf þögnina í gær og tilkynnti að öllum 850 veitingastöðum fyrirtækisins í Rússlandi yrði lokað tímabundið, einnig þeim sem starfa á sérleyfi. Í tilkynningu frá skyndibitarisanum segir að ekki sé hægt að horfa framhjá „þeim óþarfa þjáningum sem íbúar í Úkraínu þurfi nú að búa við“.
Kaffihúsakeðjan og kaffiframleiðandinn Starbucks fylgdi í kjölfarið og tilkynnti um lokun 130 kaffihúsa og stöðvun á innflutningi á kaffi til landsins. Þá tilkynntu Coca-Cola og PepsiCo að drykkir þeirra yrðu teknir úr sölu í Rússlandi. PepsiCo mun þó áfram halda áfram framleiðslu mjólkurafurða og þurrmjólkur fyrir börn „að hluta til vegna mannúðarástæðna“ en einnig til að tryggja 60 þúsund starfsmönnum áfram atvinnu.
„Samfélög eru betri þegar McDonalds er nærri“
Fyrsti veitingastaður McDonalds var opnaður á Pushkin-torgi í Moskvu árið 1990 og varð um leið eins konar tákn um vestræna menningu fyrir rússnesku þjóðinni. „Í 66 ár höfum við starfað í þeirri trú að samfélög eru betri þegar McDonalds er nærri,“ segir Chris Kempczinski, framkvæmdastjóri McDonalds, í tilkynningu. 62 þúsund manns starfa hjá McDonalds í Rússlandi og fyrirtækið á í samstarfi við hundruð rússneska birgja, að ógleymdum viðskiptavinunum, sem skipta milljónum á hverjum degi. McDonalds hyggst greiða starfsfólki sínu í Rússlandi áfram laun, rétt eins og í Úkraínu.
Fleiri skyndibitakeðjur hafa slegist í hópinn, nú síðast KFC og Pizza Hut sem ætla að loka öllum veitingastöðum sínum, um þúsund talsins, í Rússlandi og hætta öllum fjárfestingum þar í landi.
Fjárfestar, sem og samfélagsmiðlanotendur, hafa þrýst á fyrirtæki að hætta starfsemi sinni í Rússlandi. Skyndibitakeðjur hafa verið sérstaklega gagnrýndar fyrir aðgerðaleysi og fyrir að láta tækni- og fjármálafyrirtæki líkt og Apple, Visa og Mastercard, sjá um refsiaðgerðir. Kortarisarnir Mastercard og Visa, auk greiðslufyrirtækisins Paypal, hafa til að mynda lokað á allt peningaflæði til og frá Rússlands í gegnum sín kerfi. Einnig hefur fjöldi rússneskra banka verið útilokaður frá alþjóðlega greiðslumiðlunarkerfinu SWIFT.
„Fyrirtæki sem stunda viðskipti í Rússlandi verða að íhuga af alvöru hvort það sé áhættunnar virði,“ segir Thomas P. DiNapoli, formaður stjórnar eins stærsta lífeyrissjóðs í New York, í samtali við New York Times. Segist hann lofsama fyrirtækin sem hafa ákveðið að „stíga réttu skrefin og hætta starfsemi í Rússlandi“.
Hækkun ellilífeyris og bann við sölu á gjaldmiðli
Ein leið Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta til að bregðast við efnahagsþvingunum vegna stríðsins í Úkraínu er að heimila hækkanir á eftirlaunagreiðslum. Pútín skrifaði í gær undir lög þess efnis.
Þá hefur hann einnig skrifað undir lög sem heimila einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum að fara fram á tímabundna greiðslustöðvun á lánum sínum.
Virði rússnesku rúblunnar hefur verið í frjálsu falli og er nú minna en virði íslensku krónunnar, í fyrsta skipti í að minnsta kosti 16 ár. Rússnesk yfirvöld hafa brugðist við með því að setja miklar takmarkanir á sölu á gjaldmiðli. Rússneski seðlabankinn tilkynnti í gær að Rússum er nú aðeins heimilt að taka út sem nemur 10 þúsund dollurum í gjaldmiðli. Takmarkanirnar verða í gildi að minnsta kosti til 9. september.
„Við munum berjast þar til yfir lýkur“
Þrettán dagar eru frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um tvær milljónir hafi flúið Úkraínu. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar um tímabundin vopnahlé á átakasvæðum svo hægt sé að flytja almenna borgara á brott, með misjöfnum árangri.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði neðri deild breska þingsins frá Kænugarði í gær. Um sögulega stund var að ræða, aldrei áður hefur leiðtogi ríkis sem sætir innrás ávarpað breska þingið. Selenskí vitnaði bæði í Winston Churchill og William Shakespeare í ræðu sinni. „Við munum berjast þar til yfir lýkur,“ sagði Selenskí.
Selenskí óskaði jafnframt eftir auknum stuðningi, meðal annars með því að tryggja öryggi í lofthelgi Úkraínu og að skilgreina Rússland sem hryðjuverkaríki.