Næstkomandi mánudag, 14, nóvember, mun Ríkisendurskoðun kynna skýrslu sína um stjórnsýsluúttekt á söluferli Íslandsbanka í mars síðastliðnum fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Samkvæmt heimildum Kjarnans er ríkisendurskoðandi búinn að tilkynna að skýrslan muni berast nefndarmönnum í tæka tíð til þess að þeir geti kynnt sér efni hennar áður en fundurinn fer fram. Það verði þó ekki á morgun föstudag og því fá nefndarmenn skýrsluna annað hvort á laugardag eða sunnudag.
Ef haldið verður í venjur mun skýrslan svo verða birt almenningi í kjölfar kynningar fyrir nefndinni. Landsmenn geta því búist við að geta lesið hana á heimasíðu Ríkisendurskoðunar seinni part mánudags.
Þá verða næstum átta mánuðir verða frá því að salan átti sér stað og sjö mánuðir og sjö dagar verða liðnir frá því að beðið var um hana. Skilin hafa frestast um fjóra og hálfan mánuð.
Skoðað hvort ráðuneyti og Bankasýsla hafi farið að lögum
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar snýst í meginatriðum um hvort fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni, og Bankasýsla ríkisins, undirstofnun þess, hafi staðið tilhlýðilega að framkvæmd sölunnar á áðurnefndum 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka til 207 fjárfesta í lokuðu útboði fyrir 52,65 milljarða króna í mars síðastliðnum.
Hópurinn sem fékk að kaupa innihélt meðal annars starfsmenn og eigendur söluráðgjafa, litla fjárfesta sem rökstuddur grunur er um að uppfylli ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlenda skammtímasjóði sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir hafi engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, aðila sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og föður fjármála- og efnahagsráðherra.
Þá rannsakar Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) ýmsa þætti sölunnar, sérstaklega viðskipti sem áttu sér stað í aðdraganda sölunnar og atferli hluta þeirra söluráðgjafa sem ráðnir voru til að selja hluti í bankanum. Ekkert hefur verið gert opinbert um stöðu þeirrar rannsóknar en allir fimm innlendu söluráðgjafarnir hafa fengið fyrirspurnir frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar þess.
Að minnsta kosti þrír ráðherrar búnir að sjá drög að skýrslunni
Úttekt Ríkisendurskoðunar er gerð að beiðni Bjarna Benediktssonar, en hann bað formlega um gerð hennar 7. apríl síðastliðinn og Ríkisendurskoðun samþykkti að taka að sér verkið. Það gerðist í kjölfar þess að söluferlið var harðlega gagnrýnt víða í samfélaginu. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að umræða hafi skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar.
Það var gert þrátt fyrir háværar kröfur um að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis, sem hefur mun víðtækari rannsóknarheimildir, til að fara yfir söluna. Í könnun Gallup frá því í apríl kom fram að næstum þrír af hverjum fjórum aðspurðum vildi að rannsóknarnefnd yrði skipuð og taldi að ekki væri nægjanlegt að Ríkisendurskoðun skoðaði málið. Meirihluti kjósenda allra flokka utan eins, Sjálfstæðisflokks, voru á þeirri skoðun.
Ýmsir stjórnarþingmenn tóku til máls í umræðum á Alþingi á þessum tíma og sögðu að ef niðurstaða þingsins yrði að úttekt Ríkisendurskoðunar dugði ekki til að lægja öldurnar myndu þeir styðja að komið yrði á fót sjálfstæðri rannsóknarnefnd.
Drög að skýrslunni hafa legið fyrir frá 12. október síðastliðnum þegar Ríkisendurskoðun sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Bankasýslu ríkisins og stjórn hennar þau til umsagnar. Á sama tíma fékk ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins að sjá drögin. Í þeirri nefnd sitja Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Upprunalega átti frestur ráðuneytisins og Bankasýslunnar til að skila athugasemdum að renna út 19. október en hann var framlengdur til 25. október.