Á morgun, mánudag, verður kynnt skýrsla af hálfu sjávarútvegsskrifstofu Alþjóðamatvælastofnunarinnar (FAO) sem íslensk stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að láta vinna, í kjölfar þess að ljóstrað var upp um vafasama viðskiptahætti félaga á vegum Samherja í Namibíu í nóvember árið 2019.
Um er að ræða fyrsta hlutann af úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir í þróunarríkjum, en að stuðla að slíkri úttekt var ein af þeim sjö aðgerðum sem ríkisstjórnin boðaði að ráðist yrði í, „í því skyni að auka traust á íslensku atvinnulífi“ eftir að Namibíumálið skók íslenskt samfélag.
Hvað verður í þessari skýrslu?
Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vegna kynningar skýrslunnar segir að undirbúningur fyrir næsta áfanga þessarar úttektar sé þegar hafinn, en fyrsti áfanginn er, eins og áður hefur komið í svörum ráðuneytisins til Kjarnans, kortlagning á þeim fiskveiðisamningum sem um er að ræða.
„Þetta er ekki upptalning á samningum, heldur greining á því hvernig slíkir samningar eru: hvað þeir eigi sameiginlegt og hvað sé ólíkt með þeim, með svæðisbundinni áherslu sem tekur tillit til mismunandi aðstæðna og greining á helstu efnisatriðum fiskveiðisamninga,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Í svari ráðuneytisins sagði að FAO teldi að ekki væri til úttekt á þessu efni og því væri það „mikilvæg forsenda fyrir frekara starfi í þessu sambandi að skýra viðfangsefnið frekar með því að skoða mismunandi gerðir og eðli samninga og mismunandi stöðu milli hinna ýmsu svæða heimsins“.
Unnið í tengslum við annað verkefni hjá FAO
Þegar Kjarninn spurði ráðuneytið út í gang mála við úttektina fyrir um ári síðan fengust þau svör að búið væri að móta verkefnið og ná niðurstöðu varðandi ýmis formsatriði.
Í svarinu sagði einnig að úttektin yrði unnin í tengslum við annað verkefni sem er þegar væri gangi hjá alþjóðastofnuninni, sem myndi einfalda stjórnunarvinnu í kringum verkefnið.
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar spurði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skriflega út í málið á þingi og fékk þau svör, í nóvember í fyrra, að verkefnið myndi skiptast í fjóra áfanga og Ísland hefði ákveðið að fjármagnað að minnsta kosti þann fyrsta.
Nú er sá áfangi að baki og verður skýrslan kynnt á veffundi sem hefst kl. 14 á morgun. Þar mun Liam Campling, prófessor við Queen Mary-háskólann í Lundúnum kynna niðurstöður skýrslunnar. Hægt er að kynna sér málið nánar hér.