Slitastjórnir föllnu bankanna telja þann tíma sem þær hafi til að leggja fram, og undirbúa, frumvarp um nauðasamning vera á þrotum. Ástæðan er sú að Seðlabanki Íslands hefur ítrekað dregið að birta svör um skilyrði fyrir undanþágum frá fjármagnshöftum. Því hafa slitastjórnir gamla Landsbankans (LBI) og Kaupþings þegar sent kröfuhöfum sínum gögn vegna nauðasamninganna, þrátt fyrir að svör Seðlabankans um hvort búin mæti settum stöðugleikaskilyrðum liggi ekki fyrir. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun.
Þar segir að ekki hafi verið lengur hægt að bíða lengur með birtingu gagnanna vegna tímafrests sem alríkislög í Bandaríkjunum kveða á um varðandi birtingarfrest gagnvart þarlendum kröfuhöfum. Lítið svigrúm er til að breyta gögnunum eftir að þau hafa verið send út. Því eru slitabúin að ganga út frá því að Seðlabankinn muni samþykkja þau óbreytt, án þess að slíkt samþykki liggi opinberlega fyrir. LBI áætlar að láta kröfuhafa sína kjósa um nauðasamning sinn 17. nóvember næstkomandi og Kaupþing hefur boðað sína kröfuhafa á fund 24. nóvember til sömu erindagjörða.
Samþykki Seðlabankinn ekki beiðnir þeirra að mestu leyti óbreyttar segja heimildir Morgunblaðsins að stöðugleikaskattur falli óhjákvæmilega á slitabúin tvö „sem aftur kalli holskeflu málsókna yfir íslenska ríkið.“
Samkvæmt Morgunblaðinu fengu þingmenn stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, boð rá forystumönnum sínum snemma í gærmorgun um að vera viðbúnir því að vera kallaðir á þingflokksfund fyrirvaralítið, eða fyrirvaralaust, til þess að fjalla um lagafrumvörp um afnám hafta.
Mikill titringur
Kjarninn hefur greint frá því að mikill titringur hafi verið á meðal kröfuhafa að undanförnu, sérstaklega eftir að Seðlabankinn frestaði birtingu á Fjármálastöðugleikariti sínu. Þar átti að vera viðauki um þau stöðugleikaskilyrði sem slitabúin þurfa að greiða til að komast hjá 39 prósent stöðugleikaskatti og um nauðasamning þeirra. Á kynningarfundi vegna útkomu ritsins átti líka að opinbera mat á tillögum um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaframlags sem uppfylla ættu sett stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Fjármálastöðugleikaritið var birtfyrr í þessum mánuði en ekki viðaukin. Hann hefur enn ekki verið birtur.
Í byrjun síðustu viku dró svo til tíðinda. Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu klukkan 4:10 aðfaranótt 20. október þar sem tilkynnt var að íslenska ríkið væri að fara að eignast annan banka, Íslandsbanka, að öllu leyti. Fyrir á ríkið Landsbankann og 13 prósent hlut í Arion banka. Þetta var niðurstaða funda sem ráðgjafar stærstu kröfuhafa Glitnis, núverandi eiganda 95 prósent hlutar í Íslandsbanka, og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta áttu á tímabilinu 25. september til 13. október vegna breytinga á stöðugleikaframlagi kröfuhafanna.
Eftir þessar breytingar telur framkvæmdahópurinn að slitabú Glitnis sé að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og því séu forsendur fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum fyrir hendi. Og eftir þessa breytingu er íslenska ríkið orðið eigandi að tveimur af þremur stærstu bönkum landsins. Seðlabankinn á hins vegar enn eftir að staðfesta þetta mat.