Sólveig Anna Jónsdóttir, sem hefur nú opinberað að hún sækist að nýju eftir því að verða formaður Eflingar, segir að ákvörðunin um að bjóða sig fram að nýju hafi orðið til hægt og bítandi. „Það er langt um liðið frá því að ég sagði af mér. Strax í kjölfarið fékk ég fjölda skilaboða frá Eflingarfólki sem lýsti yfir miklu uppnámi yfir stöðu mála. Það var leitt yfir því að það sem við höfðum verið að gera, ég, þau og félagar okkar, væri mögulega fyrir bí. Þessi skilaboð hafa eiginlega bara haldið áfram að koma. Ég hef því velt þessu mikið fyrir mér, hlustað á þetta fólk og afstaða mín mótaðist út frá því.“
Ljóst er að töluverður undirbúningur hefur átt sér stað fyrir framboðið en Baráttulistinn hefur látið útbúa heimasíðu á íslensku, ensku og pólsku þar sem listinn og stefnumál hans eru kynnt. Á heimasíðunni getur fólk líka gefið fé til að styðja við listann eða skráð sig til þátttöku í starfi hans. Aðspurð hversu lengi framboðið hafi verið í undirbúningi segir Sólveig að hópurinn hafi augljóslega sett tíma og orku í að vinna að framboðinu. „En þetta er ekki komið til á löngum tíma.“
Mikil þorf á samstöðu verkafólks
Stefnuskráin sem Baráttulistinn kynnir til leiks í dag, og er rakin ítarlega í umfjöllun Kjarnans um framboðið sem hægt er að lesa hér, er nokkuð afgerandi. Hún er einnig á skjön við þær áherslur sem ríkisstjórnin og Samtök atvinnulífsins hafa boðað í aðdraganda kjarasamninga.
Býst Sólveig Anna við miklum átökum í tengslum við gerð kjarasamninga? „Ég ætla að svara þessu með því hugarfari sem ég hef tamið mér í aðdraganda gerðar þeirra kjarasamninga sem ég hef farið í áður. Sé valdafólk tilbúið að setja sig í spor verka- og láglaunafólks og raunverulega hlusta og skilja hvað þurfi að gera þá eru átök óþörf í kjarasamningsgerðinni.
En miðað við stemninguna og þær áherslur sem Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld hafa kynnt þá tel ég næsta víst að í þessum kjarasamningum, líkt og öðrum sem við höfum farið í gegnum, verði mjög mikil þörf á ríkri samstöðu verkafólks.“
Ályktunin sem sagði ógnarstjórn ríkja
Þegar Sólveig Anna sagði af sér sem formaður Eflingar í fyrrahaust var ástæðan ósætti við starfsmenn á skrifstofu Eflingar. Sú atburðarás hófst fimmtudaginn 28. október 2021 þegar RÚV birti viðtal við áðurnefndan Guðmund Baldursson þar sem hann greindi frá því að hann hefði ítrekað reynt að ályktun sem afhent hefði verið í júní síðastliðnum og innihélt ásakanir um að hún héldi úti sérstökum „aftökulista“ og hefði framið grafalvarleg kjarasamningsbrot. Ályktunin var undirrituð af trúnaðarmönnum og sögð sett fram fyrir hönd starfsmanna. Guðmundur sagði í fréttinni að hann hefði áhyggjur af framkomu stjórnenda Eflingar gagnvart starfsfólki. Talaði hann meðal annars um að starfsfólk sem hefði hætt hjá Eflingu hefði talið sér „að einhverju leyti ógnað innan gæsalappa, af ógnarstjórn.“
Þegar símtal hafi borist frá fréttamanni RÚV í aðdraganda birtingu fréttarinnar hafi Sólveig Anna áttað sig á því að atburðarásin sem hún hafði að einhverju leyti verið að undirbúa sig undir að gæti orðið, væri að verða að veruleika. „Ég hugleiddi bara stöðu mína og þær aðstæður sem voru upp komnar og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert annað að gera. Ég taldi mig vita með vissu að á þessum tíma væru mjög fáir úr starfsmannahópnum, alls fimm manns auk nokkurra stjórnenda, sem hefðu séð þessa ályktun. Ég taldi mig vita að það væru fáir sem hefðu komið að því að skrifa hana og að hún hefði ekki farið í neina dreifingu innan starfsmannahópsins. Af einhverjum ástæðum virðist Guðmundur Baldursson hafa fengið einhverskonar aðgang eða veður af þessu og sömuleiðis fyrrverandi stjórnandi sem reyndi að nota ályktunina til að fjárkúga mjög veglegan starfslokasamning út úr félaginu.“
Í kjölfarið sagði hún af sér.
Ákvörðun félagsfólks hverjir stýra Eflingu
Þegar Sólveig Anna er spurð, í ljósi þess hvernig afsögn hennar bar að í haust, hvort hún telji sig geta starfað að nýju með því fólki sem vinni á skrifstofu Eflingar segist hún skilja mjög vel að fólk velti því fyrir sér. Hún hafi komið sínum skilaboðum um það mál skýrt frá sér í viðtölum sem hún fór í í nóvember, meðal annars við Kjarnann. „Ég hef sagt það sem ég vil segja um það mál, sem leiddi til afsagnar minnar. Og ég vona að fjölmiðlar og samfélagið allt skilji að barátta verka- og láglaunafólks er það stór og mikilvæg að þetta snýst fyrst og síðast um hana. Það er ákvörðun félagsfólks Eflingar hverjir stýra félaginu. Starfsfólk skrifstofunnar vinnur fyrir félagsfólkið, ekki öfugt. Fari svo að við vinnum, og einhverjir starfsmenn skrifstofunnar geti ekki sætt sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, þá er augljóst að vilji félagsfólks gildir. Það er því ekki mitt að svara þessari spurningu.“