Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að ásakanir um einelti og kvenfyrirlitning af hans hálfu, sem hafa í dag verið hafðar eftir starfsmönnum Eflingar upp úr vinnustaðaúttekt sálfræðistofunnar Líf og sálar, séu ósannar. Sólveig Anna Jónsdóttir fyrrverandi formaður Eflingar, sem sækist eftir því að leiða félagið á ný, hefur sömuleiðis fjallað um úttekt sálfræðistofunnar í færslu á Facebook og segir bæði hana og Viðar „sitja undir því að vera ásökuð nafnlaust um ýmsa glæpi“ sem þau hafi ekki framið.
Í fréttatilkynningu frá Eflingu sem barst á þriðja tímanum segir meðal annars frá því að sálfræðingar á vegum Lífs og sálar telji „töluvert áhyggjuefni hve starfsmönnum var tíðrætt um kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti af hálfu framkvæmdarstjóra, að því er virðist í skjóli formanns“.
Ýmsir helstu fjölmiðlar landsins, þeirra á meðal mbl.is, Vísir og RÚV hafa í dag fjallað um niðurstöður þessarar úttektar. Í tilkynningunni frá Eflingu um málið segir að fjórir sálfræðingar hafi tekið viðtöl við 48 starfsmenn skrifstofunnar og að það meðal annars verið þeirra mat að „framganga fyrrum formanns og framkvæmdastjóra Eflingar gagnvart starfsmannahópnum og svo einangrun þeirra á sinni vegferð, virðist hafa orðið til þess að þau náðu ekki hópnum með sér og átök og togstreita jókst uns upp úr sauð.“
Þá hafi verið „tortryggni á báða bóga í byrjun sem virðist ekki hafa verið unnið í að eyða af hálfu stjórnenda“ og það hafi gert bæði starfsmannahópnum og stjórnendum „erfitt um vik að finna takt og samstöðu.“
„Að mati greiningaraðila virðast óundirbúnar breytingar, léleg miðlun upplýsinga, neikvæð framkoma gagnvart undirmönnum og tíðar og óvæntar uppsagnir hafa skapað óöryggi og vantraust í hópnum. Virðist hafa skort mjög að hafa starfshópinn með í ráðum um hvernig hann gæti stutt við og eflt formann og stjórn og aðstoðað við að ná markmiðum stjórnenda í sínu starfi,“ segir einnig í tilkynningu frá Eflingu um niðurstöðurnar.
Þar er jafnframt haft eftir Lindu Dröfn Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra félagsins að það sé ákveðinn léttir fyrir skrifstofuna að vinnustaðaúttekin sé komin fram.
Sólveig segir „einfaldlega ósatt“ að hún hafi ekki brugðist við ábendingum
Bæði Sólveig og Viðar brugðust við fregnum fjölmiðla í dag áður en Efling sendi frá sér tilkynningu þar sem niðurstöðunum er lýst. Hvorugt þeirra segist hafa fengið að sjá niðurstöðurnar né tækifæri til þess að svara fyrir sig.
„Og í dag heyri ég í fréttum að önnur “úttekt” hafi leitt í ljós að starfsfólk skrifstofunnar hafi margoft leitað til mín til að segja mér af illri meðferð en ég aldrei brugðist við.
Staðreyndin er sú að þetta er einfaldlega ósatt. Í eitt skipti var komið til mín eftir krókaleiðum. Mér var sýnt samansafn að ódagsettum og nafnlausum upplifunum einhverra sem störfuðu á skrifstofunni. Ég mátti ekki halda pappírunum eftir til að gaumgæfa þá. Ég mátti ekki fá að vita um hvaða manneskjur var að ræða. Í því samansafni af upplifunum sem mér var sýnt var ekki talað um ofbeldi eða áreiti. Ég gat ekki áttað mig á því um hvað margar manneskjur var að ræða sökum framsetningar en mér taldist til að sennilega væru þetta 5 manneskjur sem þarna hefðu skrifað.
Nú er ég í fréttum ásökuð um að hafa nært umhverfi kvenfyrirlitningar vegna vanhæfni minnar og/eða siðblindu. Lengi skal konuna reyna,“ segir Sólveig Anna í færslu á Facebook.
Uppfært: Skjáskot af tölvupóstsamskiptum þeim sem fjallað er um í færslunni fylgja. Í gær las ég um það í fjölmiðlum...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Thursday, February 3, 2022
Viðar vísar þeim ávirðingum sem á hann eru bornar á bug, í yfirlýsingu sinni. Hann lýsir jafnframt „mikilli furðu á því“ að hans fyrrum vinnustaður hafi gert hann hans störf að „umfjöllunarefni í vinnustaðaúttekt og látið fella um þau þungan dóm án þess að gefa mér minnsta færi á segja mína hlið á málum.“ Jafnframt segist hann ekki fá skilið „hvers vegna sálfræðistofan Líf og sál hefur látið hafa sig í slíka vegferð.“
Vinnustaðaúttektin „sterkasta vopnið“ í höndum hóps starfsfólks á skrifstofu
Í yfirlýsingu Viðar kemur fram að hann hafi vitað að úttekt Líf og sálar á vinnustaðnum væri í undirbúningi frá því fyrir jól og að hann „vissi líka að þessi úttekt yrði sterkasta vopnið í höndum hóps starfsfólks á skrifstofu Eflingar sem hefur lengi haft horn í síðu minni og Sólveigar Önnu Jónsdóttur fyrrum formanns Eflingar.“
„Ég vissi að þessir einstaklingar myndu nota sér nafnleysi til að bera mig sökum, og að niðurstöðunum yrði svo lekið á réttum tíma í fjölmiðla til að hámarka skaðann fyrir Sólveigu Önnu og framboð Baráttulistans. Nákvæmlega það hefur gerst,“ segir í yfirlýsingu Viðars.
„Hið rétta er að ég axlaði ábyrgð á því hlutverki mínu sem framkvæmdastjóri að gera eðlilegar kröfur til stjórnenda, með hagsmuni starfseminnar og félagsmanna Eflingar í huga. Ég harma það að þessir einstaklingar notfæri sér vanlíðan þeirra sem upplifað hafa raunverulegt einelti og kvenfyrirlitningu til að koma höggi á mig vegna ósættis sem snýst um frammistöðu og vinnubrögð í starfi,“ segir í yfirlýsingu Viðars.
Háttsettur stjórnandi hafi hafið „ásakanaherferð“ eftir uppsögn
Viðar rekur í yfirlýsingu sinni að hann hafi, um mitt síðasta ár, sagt háttsettum kvenkyns stjórnanda hjá Eflingu upp störfum. „Mikill skortur á samhljómi og samstilingu við stefnu félagsins hafði verið áberandi í störfum þessa stjórnanda. Áður en að uppsögninni kom hafði ég átt ítrekuð samskipti við hana þar sem ég reyndi að rétta kúrsinn,“ segir Viðar.
Hann segir að í kjölfar uppsagnarinnar hafi þessi stjórnandi hafið „ásakanaherferð“ á hendur sé, sem verið hafi keimlík þeirri „sem aðrir háttsettir stjórnendur hjá félaginu hafa stundað gegn mér og Sólveigu Önnu Jónsdóttur allt frá því við hófum störf hjá Eflingu árið 2018.“
„Hún sendi inn erindi til stjórnar Eflingar þar sem ég var sakaður um óeðlilega framgöngu gagnvart henni. Krafðist hún þess að fá veglegan starfslokasamning og að mér yrði vikið úr starfi. Jafnframt hafði hún safnað liði meðal annarra fyrrum stjórnanda sem af ýmsum ástæðum höfðu ekki átt samleið með félaginu á undangengnum árum, til að geta dregið upp þá mynd að annarlegar orsakir væru að baki því þegar leiðir stjórnenda skildu við félagið. Enginn þessara stjórnenda hafði þó haft uppi slíkar ásakanir fyrr,“ segir í yfirlýsingu Viðars.
Hann segir að umræddur stjórnandi hafi í erindi sínu til stjórnar Eflingar vakið „sérstaka athygli á því að þetta væru allt konur“, án þess þó að Viðar væri berum orðum sakaður um kvenfyrirlitningu eða fordóma í garð kvenna. Það hafi þess í stað verið „látið liggja í loftinu.“
„Stjórn Eflingar gaf mér færi á að svara þessum ásökunum, og gerði ég það í ítarlegri greinargerð þar sem ég fór yfir samskipti mín við stjórnandann. Ég fjallaði einnig um aðdragandann að viðskilnaði félagsins við aðra stjórnendur sem nefndir voru í erindinu. Ég greindi frá dagsettum fundum og samtölum, nær alltaf í vitna viðurvist, og vitnaði í skrifleg samskipti. Ég greindi frá ýmsum úrræðum sem gripið hafði verið til í þeim tilgangi að leysa málin, svo sem að veita umræddum einstaklingum utanaðkomandi stjórnunarráðgjöf, bjóða þeim tilflutning í starfi og bjóða þeim námsleyfi. Allir sem lesa þessar greinargerðir sjá að þar var ekki á ferðinni neitt annað en heiðarlegar tilraunir yfirmanns til að veita undirmönnum sínum nauðsynlega leiðsögn í starfi. Stjórn varð ekki við óskum stjórnandans um viðbótargreiðslur vegna starfsloka og sá ekki ástæðu til að hlutast til um mín störf.
Þetta er samhengið sem ekki hefur komið fram varðandi tímasetningu margumræddrar ályktunar trúnaðarmanna frá því síðastliðið sumar. Umræddur stjórnandi virðist hafa verið með í ráðum um samningu þeirrar ályktunar, enda vísaði hún til hennar í erindi sínu til stjórnar Eflingar, áður en stærstur meirihluti starfsmanna skrifstofu Eflingar höfðu séð hana. Raunar fengu almennir starfsmenn ekki að sjá ályktun trúnaðarmannanna fyrr en á starfsmannafundi 29. október á síðasta ári,“ segir Viðar í yfirlýsingu sinni vegna þessa máls.