Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir hádegi að aflétta hluta af sóttvarnatakmörkunum sem ekki áttu að taka gildi fyrr en 24. febrúar, í öðru skrefi afléttingaráætlunar stjórnvalda vegna COVID-19. „Ef ekkert óvænt gerist þá getum við aflétt öllu í lok mánaðar," sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi. Meðal helstu breytinga er að 200 manns verður heimilt að koma saman í stað 50 og sóttkví og skólareglugerð fellur úr gildi.
Reglur um sóttkví falla úr gildi í dag og eru því munu 9.712 manns sem skráð eru í sóttkví þessa stundina losna þegar reglugerðin birtist í Stjórnartíðindum síðar í dag. Þeir sem þegar eru í sóttkví þurfa því ekki að mæta í sýnatöku til að losna og á það einnig við um þá sem áttu að fara í sýnatöku í dag. Þeim sem hafa verið útsettir fyrir smiti verður ekki lengur skylt að sæta smitgát þótt hvatt sé til hennar og þar með fellur jafnframt brott skylda til sýnatöku í lok smitgátar.
Á miðnætti verður skólareglugerð afnumin og verða því engar takmarkanir á skólahaldi í grunn- og framhaldsskólum. Þannig verða skólaskemmtanir heimilar á ný.
Afléttingaráætlun stjórnvalda sem kynnt var fyrir tveimur vikum er í þremur skrefum. Samkvæmt henni á næsta skref að taka gildi 24. febrúar en nú er ljóst að hluti þeirra takmarkana sem átti að aflétta þá verður aflétt á miðnætti.
Niðurfelling á reglum um einangrun og sóttkví er meðal þess sem á að taka gildi í næsta skrefi afléttingaráætlunarinnar en heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sögðu í fréttum í gær að ekki þætti tímabært að afnema einangrun. Sóttkví hefur hins vegar verið afnumin.
Í reglugerðinni er sund- og líkamsræktarstöðvum, sem og skíðasvæðum, heimilt að taka á móti gestum með fullum afköstum.
Afgreiðslutími staða með vínveitingaleyfi verður lengdur um eina klukkustund, það er að heimilt er að taka á móti gestum til miðnættis en allir þurfa að hafa yfirgefið staðinn klukkan eitt.
Smitum hefur farið fjölgandi í vikunni. Á miðvikudag var enn eitt metið sett þega 2.252 smit greindust daginn áður. Á sama tíma hefur innlögnum á Landspítala ekki fjölgað. 32 eru á spítala sem stendur með COVID-19. Karlmaður á níræðisaldri með Covid-19 lést á legudeild á spítalanum í gær.
Reglugerðin sem tekur gildi á miðnætti gildir í tvær vikur, eða til og með 25. febrúar. Annað skref afléttingaráætlunar stjórnvalda á að taka gildi þann 24. febrúar en allar takmarkanir eiga að falla úr gildi 14. mars. Það gæti þó breyst ef marka má orð heilbrigðisráðherra og öllum takmörkunum verði aflétt í lok febrúar.