Norska hagstofan (SSB) býst við að íbúðaverð í landinu muni hækka um 9 prósent í ár, þar sem stofnunin telur að vaxtastig muni haldast lágt í sögulegu samhengi. Þetta kemur fram í nýrri hagspá hagstofunnar sem kom út síðasta föstudag.
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um hefur verið mikið líf á fasteignamarkaðnum í Noregi eftir að vextir lækkuðu þar í landi í kjölfar heimsfaraldursins í fyrra. Þetta náði bæði til íbúðahúsa og sumarhúsa, en í nóvember síðastliðnum, seldust 85 prósent fleiri orlofshús í Noregi en á sama tíma árið á undan.
Samkvæmt norska miðlinum E24 hækkaði fasteignaverð um 10,2 prósent í Osló, höfuðborg Noregs, í fyrra. Til samanburðar hækkaði vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu hér á landi um 7,2 prósent á sama tíma. Í báðum löndunum átti megnið af hækkuninni sér stað á milli maí- og desembermánaðar.
Í hagspá SSB segir að þessar hröðu verðhækkanir bendi til þess að miklar vaxtalækkanir í Noregi hafi yfirgnæft hugsanleg áhrif hóflegrar tekjuaukningar og lítillar mannfjölgunar á húsnæðismarkaðinn. Samkvæmt stofnuninni er líka líklegt að þvingaður sparnaður, tilkominn vegna þess að lokað var fyrir ýmsar tegundir neyslu vegna sóttvarnarráðstafana, hafi haft jákvæð áhrif á íbúðaverð.
SSB spáir lítils háttar hækkun vaxta á seinni hluta ársins, en býst þó við að þeir muni haldast lágir í sögulegu samhengi út árið. Samkvæmt spá þeirra mun lágt vaxtastig knýja áfram verðhækkanir á markaðnum næstu mánuðina, samhliða aukinni skuldsetningu Norðmanna. Aukin íbúðafjárfesting gæti vegið á móti þessum verðhækkunum.
E24 hefur eftir Tomas von Brasch, sérfræðingi hjá SSB, að núverandi staða endurspegli fórnarskiptin sem seðlabanki Noregs stendur frammi fyrir. „Hann vill ná fjármálastöðugleika og stöðugleika á fasteignamarkaði. Það mikilvægasta er að halda verðbólgunni í skefjum og sjá til þess að framleiðsluþættir séu fullnýttir. Þeir hafa mörg markmið og eitt mikilvægt tæki, vaxtastigið,“ segir von Brasch.
„Það sem faraldurinn hefur sýnt sig er að það getur verið erfitt að ná mörgum markmiðum með einu tæki. Þetta verður jafnvægislist,“ bætir hann við.