Sparisjóðurinn í Vestmannaeyjum, sem tekinn var yfir af Landsbanka Íslands á dögunum, fékk síðast heilbrigðisvottorð frá endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton í lok ágúst. Málefni sparisjóðsins voru til umræðu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á miðvikudaginn, þar sem stjórn sjóðsins sat fyrir svörum nefndarmanna, sem vildu meðal annars fá svör við því af hverju bágborin staða sjóðsins hafi ekki legið fyrr fyrir.
Grafalvarleg staða Sparisjóðsins í Vestmannaeyjum kom ekki í ljós fyrr en eftir sérstaka útlánagreiningu Grant Thornton, sem stjórnin ákvað að fela endurskoðunarfyrirtækinu að ráðast í í október. Eftir greininguna kom í ljós að útlánasafn sjóðsins var gróflega ofmetið, og færa þyrfti niður safnið um allt að milljarð króna. Niðurstaða útlánagreiningarinnar og niðurfærsla útlánasafnsins í kjölfarið varð til þess að Fjármálaeftirlitið (FME) ákvað á fundi sunnudagskvöldið 22. mars síðastliðinn að veita sjóðnum fimm sólarhringa frest til að bæta eigið fé sjóðsins, en þá lá til að mynda ársreikningur sjóðsins ekki fyrir. Þá tilkynnti FME stjórn Sparisjóðsins í Vestmannaeyjum að sjóðurinn yrði settur í slitameðferð ef ekki yrði staðið við veittan frest. Þegar fréttir af aðkomu FME láku svo út gerðu innistæðueigendur áhlaup á sparisjóðinn, sem hafði svo mjög skaðleg áhrif á lausafjárstöðu hans.
FME fékk falska mynd af stöðu sjóðsins á sex mánaða fresti
Grant Thornton hafði tveimur mánuðum fyrir útlánagreininguna gefið út heilbrigðisvottorð handa sparisjóðnum við reglubundið sex mánaða uppgjör hans, sem skilað var til FME eins og lög um fjármálafyrirtæki gera ráð fyrir. Hvorki Grant Thornton né FME gerðu athugasemdir við sex mánaða uppgjör sparisjóðsins, enda eiginfjárhlutfall hans samkvæmt því vel yfir 8 prósenta lágmarki FME, eða um 14 prósent.
Í samtali við Kjarnann furðar Hæstaréttarlögmaðurinn Þorbjörg Inga Jónsdóttir, fráfarandi stjórnarformaður sparisjóðsins, sig á því að endurskoðunarfyrirtæki, sem hafi endurskoðað reikninga sjóðsins undanfarin ár, hafi skrifað upp á reikninga hans athugasemdalaust. Grant Thornton skrifaði upp á ársreikning sparisjóðsins fyrir árið 2013, og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte árið á undan.
Þá segir Þorbjörg Inga það furðu sæta að slæm staða sjóðsins hafi ekki dúkkað upp á yfirborðið við fjárhagslega endurskipulagningu hans í lok árs 2010, þegar stofnfé hans var meðal annars aukið um 904 milljónir króna að nafnvirði, eða við útlánagreiningu sem Deloitte réðst í haustið 2011, sambærilega við þá sem Grant Thornton réðst í nýverið og leiddi í ljós grafalvarlega stöðu sparisjóðsins. Kröfurnar, sem sjóðurinn hafi neyðst til að færa niður nú, hafi að minnsta kosti að hluta til verið lengi í eigu sjóðsins.
„Mér finnst óeðlilegt að þetta hafi getað gerst miðað við það eftirlitskerfi sem búið er fjármálafyrirtækjum, bæði með lögbundinni innri og ytri endurskoðun sem ætti að hafa það í för með sér að þessir aðilar skoði það sjálfstætt hvort reikningar fjármálafyrirtækja gefi rétta mynd af eignum þeirra og skuldum, til dæmis með því að staðreyna skráningu einstakra krafna og verðgildi þeirra svo sem með slembiúrtökum.“