Það væri óráðlegt að hanna Blöndulínu 3 þannig að rekstur hennar stæði og félli með því að jafnstraumstenging yfir Sprengisand væri í rekstri, segir í svari Landsnets við fyrirspurn Kjarnans um viðbrögð við þeim hugmyndum Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) að leggja jarðstreng meðfram Sprengisandsleið, tengja með honum virkjanir á Norður- og og Suðurlandi og auka um leið möguleika á því að leggja áformaða Blöndulínu 3 í jörð.
Aðalvalkostur Landsnets, sem fram var settur í umhverfismatsskýrslu nýverið, er að Blöndulína 3 verði í lofti alla leiðina frá Blöndustöð til Akureyrar. Þetta hafa m.a. sveitarfélög á svæðinu gagnrýnt enda öll sagt að þau vilji að minnsta kosti hluta línunnar í jörð. En því verður ekki að heilsa því samkvæmt rannsóknum Landsnets verður aðeins gerlegt að leggja um 4-7 kílómetra af hinni rúmlega 100 kílómetra löngu Blöndulínu í jörð.
SUNN sagði í umsögn sinni við umhverfismatsskýrsluna að með því að leggja streng meðfram Sprengisandsleið yrði slegið á þennan hnút og þar með það ósætti sem ríkt hefur árum saman um framkvæmdina. Bentu þau einnig á, máli sinu til stuðnings, að Landsnet hafi talað fyrir hálendisleið í sínum kerfisáætlunum í mörg ár. Í þeim hafi m.a. komið fram að strengur á Sprengisandsleið hefði „jákvæð áhrif á mögulega lengd jarðstrengja á Norðurlandi“.
Niðurstaða athugunar SUNN er sú að það sé raunhæfur kostur að leggja jarðstreng yfir hálendið, bæði út frá tæknilegum forsendum Landsnets, raforkulögum og lögum um umhverfismat og að við Blöndulínu 3 beri að taka áhrif þessa valkosts inn í myndina. „Fráleitt“ sé að umhverfismati geti lokið án þess að jarðstrengur yfir Sprengisand sé athugaður. Að halda hálendisleiðinni utan umhverfismats Blöndulínu 3 sé „mjög gagnrýnisvert“ og ekkert í umhverfismatsskýrslunni rökstyðji réttmæti þess, segir SUNN í umsögn sinni.
Samtökin segja „fjölbreyttar tölur um hámarkslengd jarðstrengs í Blöndulínu 3 hafa í gegnum tíðina komið frá Landsnet. SUNN segir að ganga eigi út frá þeirri forsendu að í Blöndulínu 3 sé hámarkslengd jarðstrengja og til þess að ná því markmiði, verði að líta til bæði tæknikosta og forgangsröðunar framkvæmda.
Það er enda tæknilegum takmörkunum háð hversu langir kaflar flutningskerfis raforku geta verið í jörðu og jarðstrengslögn á einni línu getur haft áhrif á möguleika til slíks í annarri. Auðvitað hefur orðið framþróun í þessu líkt og öðru á síðari árum en engu að síður þarf að velja þá kafla vel sem teknir eru úr lofti og grafnir í jörð. Ágreiningurinn í dag, sem m.a. birtist ágætlega í umsögn SUNN annars vegar og hjá Landsneti hins vegar, snýst fyrst og fremst um hversu langir þessir kaflar geta verið miðað við nútímatækni og útfærslu alls kerfisins.
Í svari Landsnets er farið yfir nokkur tæknileg atriði sem fyrirtækið telur skipta máli í þessu samhengi. Þegar rætt sé um jarðstreng yfir Sprengisand sé átt við svokallaðan jafnstraumsstreng (HVDC). Þar sem hálendisleiðin er löng, um 200 kíómetrar sé hefðbundinn riðstraumsstrengur útilokaður. Jafnstraumstenging samanstendur af svokölluðum umbreytistöðvum á sitthvorum enda tengingarinnar, segir Landsnet, sem hafi það hlutverk að breyta riðstraum í jafnstraum á öðrum endanum og öfugt á hinum endanum. Þessi endabúnaður hafi ýmsa eiginleika sem bætt geti rekstur kerfisins, m.a. með tilliti til spennustýringar. „Það, eitt og sér, gefur færi á að leggja eitthvað lengri jarðstrengskafla í nærliggjandi riðstraumslínum,“ stendur í svari Landsnets.
Hins vegar yrðu þær riðstraumslínur háðar því að endabúnaðurinn væri í rekstri, þ.e. ekki óvirkur vegna bilana eða viðhalds. En viðhaldsþörfin á búnaði í umbreytistöðvunum krefjist þess að þær séu teknar úr rekstri árlega, jafnvel í nokkrar vikur senn. „Það ylli þá því að mögulega þyrfti að taka fyrrnefndar riðstraumslínur einnig úr rekstri ef jarðstrengslengdir í þeim væru skilgreindar út frá jafnstraumstengingu yfir hálendið. Það væri því óráðlegt að hanna t.d. Blöndulínu 3 þannig að rekstur hennar stæði og félli með því að jafnstraumstengingin yfir Sprengisand væri í rekstri.“
Það sé mikilvægt að Blöndulína 3 sem og aðrar línur í meginflutningskerfinu séu „þannig úr garði gerðar að rekstur þeirra standi á eigin fótum, þ.e. sé ekki háður einhverjum öðrum búnaði“.
Landsnet bendir ennfremur á að endabúnaðurinn, þ.e. umbreytistöðvarnar, sé „afar flókinn og dýr“ sem geri jafnstraumstengingu yfir Sprengisand hlutfallslega kostnaðarsama miðað við hefðbundnar riðstraumstengingar. „Það væri miklu til kostað að ráðast í svo umfangsmikla og dýra framkvæmd til þess að auka strengmöguleika í Blöndulínu 3 um fáa kílómetra“ sem að auki væru svo ekki endilega í hendi.
„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að leggja flutningslínu yfir Sprengisand og allt eins líklegt að ný kynslóð byggðalínu verði kláruð með því að spennuhækka núverandi byggðalínu sunnan Vatnajökuls í 220 kV við endurnýjun hennar sem væntanlega verður framkvæmd á næsta áratug, en sá hluti byggðalínunnar verður 50 ára árið 2034,“ segir í svari Landsnets.
Umhverfismatsskýrsla Landsnets á Blöndulínu 3 má lesa hér.
Umsögn SUNN í heild sinni má lesa hér.