Sprotafyrirtæki sem farið hafa í gegnum Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn, sem Arion banki og Klak Innovit standa að, hafa sótt sér 650 milljónir króna frá því að hann hófst árið 2012. Megnið af fénu hefur komið í gegnum framlög úr styrktar- og rannsóknarsjóðum, en einnig frá nýjum hluthöfum og fjárfestum. Samtals eru sprotafyrirtækin 37 sem hafa náð sér í þetta fjármagn. Einar Gunnar Guðmundsson, sem hefur nýsköpunarmál hjá Arion banki á sinni könnu, segir það eitt og sér vera mikinn og augljósan ávinning af viðskiptahraðlinum til þessa. Margt annað megi nefna sem árangur, eins og fjölda nýrra starfa hjá þessum fyrirtækjum.
Hann segir verkefnið hafa verið lærdómsríkt og án nokkurs vafa hjálpað til við að örva sprota- og nýsköpunarumhverfið á Íslandi eftir hrun fjármálakerfisins, og að það sé líflegt um þessar mundir. „Við erum ótrúlega ánægð og stolt af þessu,“ segir Einar Gunnar. Nauðsynlegt sé þó að styrkja aðgengi sprotafyrirtækja að fjármagni, og bindur Einar Gunnar vonir við stofnun nýrra fjárfestingasjóða í þeim efnum. Til framtíðar þurfi að leita út fyrir landsteinanna og einnig að fá fjárfesta hér á landi til þess að sýna þessum geira meiri áhuga.
Markmið aðstandenda Startup Reykjavík sé að horfa til langrar framtíðar, eins og þurfi að gera þegar um er að ræða frumkvöðla- og nýsköpunarstarf.
Kjarninn hefur fylgt Startup Reykjavík verkefninu eftir á þessu ári, og fjallaði meðal annars um öll fyrirtækin sem fóru í gegnum hraðalinn, og fleiri fyrirtæki sem hafa farið í gegnum það sársaukafulla ferli að koma fótunum undir starfsemi alveg frá hugmyndastigi. Þá voru fyrirtæki heimsótt sem hafa verið að náð miklum árangri í innra starfi þegar kemur að nýsköpun við vöruþróun, og má þar meðal annars nefna TM Software, sem hefur margfaldað umsvif sín eftir að starfsmenn fyrirtækisins byggðu upp Tempo hugbúnaðinn, sem í dag er seldur til meira en sex þúsund viðskiptavina um allan heim.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar hjá sumum fyrirtækjanna á þeim tíma sem Kjarninn byrjaði að fjalla markvisst um starfsemina, og eru þau nú mörg hver að vinna að því að sækja sér fé til vaxtar og uppbyggingar.
https://vimeo.com/115519990