Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Svandísi Svavarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum í dag hvort hún ætlaði að nota nýfengið ráðherraembætti til að brjóta upp forréttindakerfið í sjávarútvegi sem samstarfsflokkar hennar í ríkisstjórn stæðu vörð um. Hann spurði ráðherrann einnig hvort gjaldtaka vegna veiða yrði aukin og hvort uppboð á kvóta yrði hluti af blandaðri lausn.
Svandís svaraði því til að í stjórnarsáttmálanum væri henni falið að leggja undirstöðu að nýrri nefnd til að fjalla um þessi mál. Í stjórnarsáttmálunum segir að sú nefnd eigi að „kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verður einnig falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.“
Þá á nefndin að fjalla um hvernig hægt sé að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins.
Engin sáttur við kerfið nema þeir sem hagnist verulega á því
Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í síðustu viku rifjaði Sigmar upp ræðu sem Svandís flutti fyrir rúmum fimm árum í þinginu. Þá ræðu rifjaði hann aftur upp í óundirbúnum fyrirspurnum í dag, en í henni sagði núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra meðal annars: „Í samfélaginu er viðvarandi og afar djúpstætt ósætti um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Auðlindin sem sannarlega er þjóðarinnar, við skiljum það öll svo, skilar einfaldlega ekki nægum verðmætum í sameiginlega sjóði og örfáar fjölskyldur hafa efnast gríðarlega um mjög langt skeið. Í raun má segja að enginn sé sáttur við kerfið eins og það er nema þeir sem hagnast verulega á því og svo þeir stjórnmálaflokkar sem hafa gert sér far um að verja þau forréttindi, núverandi stjórnarflokkar.“
Hægt er að sjá ræðu Svandísar frá 25. ágúst 2016 hér að neðan:
Þeir flokkar sem fóru með stjórn landsins á þessum tíma, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eru í dag samstarfsflokkar Vinstri grænna í ríkisstjórn. Sigmar spurði Svandísi hvort slá mætti því föstu að hún myndi standa við orð sín um að forréttindakerfið sem samstarfsflokkar hennar í ríkisstjórn stæðu vörð um yrði brotið upp, aukin gjaldtaka heimiluð og að uppboð á kvóta yrði hluti af blandaðri lausn?
Svandís svaraði því til að leiðarljós allra þingmanna í umfjöllun um mikilvæg grundvallarkerfi á borð við fiskveiðistjórnunarkerfið hlýti alltaf að vera almannahagur. „Það hlýtur alltaf að vera hagur samfélagsins alls, en ekki fárra. Hlýtur alltaf að vera hagur lífríkisins alls, en ekki ágengar nýtingar. Síðan er það svo að í stjórnarsáttmálanum er mér falið að leggja undirstöðu að nýrri nefnd.“
„Já, ég mun stofna nefnd, var svarið“
Sigmar svaraði því til að ræðan sem Svandís hefði haldið fyrir fimm árum hefði verið „snöggt um betri en þessi sem var haldin hér og nú.“ Hann hefði spurt hvort til stæði að standa við orð sín. „Já, ég mun stofna nefnd, var svarið. Það að stofna nefnd um það mikla ósætti sem hefur klofið þjóðina í gegnum tíðina í áratugi er ekki stefna. Við þekkjum vandann. Hann er sá að þjóðinni misbýður hvers konar gjald er tekið fyrir aðgang að auðlindinni.“
Þingmaðurinn ítrekaði því fyrirspurn sína og spurði ráðherrann hvort til greina kæmi að brjóta upp fiskveiðistjórnunarkerfið, setja öflugt auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem tímabinding samninga væri útgangspunkturinn og „leiðrétta þetta óréttlæti og auka sáttina þannig að við getum farið að snúa okkur að öðrum og uppbyggilegri verkefnum heldur en að vera alltaf að hnakkrífast um kerfi sem ætti þó öllum jafna að vera talsvert meiri sátt um
Svandís svaraði öðru sinni og sagði verkefni nefndarinnar sem hún myndi skipa vera að fjalla um hvernig Ísland geti náð meiri árangri í fiskveiðistjórnunarkerfinu og hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. „Það er stórmál og það mál er mál sem varðar þessa sátt í samfélaginu. [...] Já ég er þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt og löngu tímabært að gera þær endurbætur á stjórnarskrá sem að lúta að öflugu auðlindaákvæði.“