Stærstu einkareknu fjarskiptafyrirtæki landsins sameinast í nokkuð hvassri gagnrýni á nýtt stjórnarfrumvarp, sem myndi leiða til breytinga á fjarskiptalögum, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Þetta má lesa í umsögnum þeirra um málið, sem sendar voru til Alþingis fyrir helgi.
Frumvarpið, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttur viðskipta-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggur fram, er sagt lagt til vegna endurmats stjórnvalda á áætlunum og viðbúnaði í kjölfar orðinna og mögulegra breytinga á eignarhaldi fjarskiptainnviða, eins og sölu Símans á Mílu til franska fjárfestingarfyrirtækisins Ardian.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að það sé „frumskylda ríkisvaldsins“ að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi og áreiðanleika fjarskipta á landinu með tilliti til þjóðaröryggis og almannahagsmuna. Með frumvarpinu er lagt til að „ítarlegri kröfur verði gerðar til fjarskiptafyrirtækja um áhættustýringu og viðbúnað, ekki síst að því er útvistun rekstrarþátta út fyrir íslenska lögsögu varðar“.
Sekt sem geti orðið 4 prósent af veltu
Á meðal þess sem finna má í frumvarpinu er heimild fyrir Fjarskiptastofu til þess að leggja á stjórnvaldssektir, sem geta numið allt að 4 prósentum af heildarveltu fjarskiptafyrirtækis, ef Fjarskiptastofa telur að fjarskiptafyrirtæki hafi ekki afhent „réttar, fullnægjandi og uppfærðar upplýsingar“ um m.a. eigendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og eftirlits- og stjórnkerfi innan fjarskiptafyrirtækis.
Í umsögn Símans segir að þetta ákvæði og tilgangur þess sé „með öllu óskiljanlegur“ og að það feli í sér að Fjarskiptastofu sé veitt ótakmarkað vald til að kalla eftir „persónulegum upplýsingum um einstaklinga sem hafa enga þýðingu“, jafnvel upplýsingum sem fyrirtæki „eigi engan rétt til þess að fá“ frá eigin starfsmönnum. Sýn segist gera við þetta „verulegar athugasemdir“ og Nova mótmælir þessum fyrirætlunum og kallar ákvæðið „matskennt“.
Ráðherra geti stöðvað eða afturkallað erlenda fjárfestingu
Í frumvarpinu má einnig finna ákvæði um að ráðherra geti bundið erlenda fjárfestingu skilyrðum „í því skyni að koma í veg fyrir að hún geti ógnað öryggi landsins“ eða gengið gegn allsherjarreglu og almannaöryggi. Ef brotið sé gegn þessum skilyrðum sem ráðherra setji, verði ráðherra svo „heimilt að taka ákvörðun um að hlutaðeigandi erlendi fjárfesting skuli ganga til baka að viðlögðum dagsektum, eftir að hafa skorað á hlutaðeigandi að bæta úr broti.“
Dagsektunum skal samkvæmt frumvarpinu fylgja lögveð í réttindum erlenda fjárfestisins í því fyrirtæki sem fjárfestingin varða og ráðherra gæti enn fremur, samkvæmt frumvarpinu, lýst atkvæðisrétt fjárfestis í viðkomandi fyrirtæki óvirkan – auk þess sem ráðherra gæti „krafist innlausnar á eignum og réttindum fjárfestis í viðkomandi atvinnufyrirtæki“.
Í frumvarpinu segir að lögunum sé ætla að gilda aftur í tímann, um „erlendar fjárfestingar sem áttu sér stað fyrir gildistöku þeirra ef frestur ráðherra til að stöðva þær“ á grundvelli ákvæða laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hafi ekki verið útrunninn við birtingu laganna í Stjórnartíðindum. Í lögunum sem vísað er til talað um að ráðherra skuli kunngjöra ákvörðun sína um stöðvun fjárfestingar „innan átta vikna frá því að honum berst vitneskja um hlutaðeigandi fjárfestingu“.
Bæði Sýn og Nova hafa lokið sölu á óvirkum fjarskiptainnviðum til erlendra aðila að undanförnu og segja í umsögnum sínum um málið að tímafrestir hins opinbera til að grípa til íhlutunar séu liðnir. Sýn telur þó þörf á að árétta það í umsögn sinni að þessi grein laganna muni ekki ná til sölu óvirkra fjarskiptainnviða félagsins og hið sama gerir Nova, en í umsögn félagsins segir að salan á óvirkum fjarskiptainnviðum félagsins geti „ekki talist gefa tilefni til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu“.
„Fjarstæðukennt“ segir Síminn
Síminn, sem hefur skrifað undir samkomulag um sölu á dótturfélagi sínu Mílu til franska sjóðsins Ardian fyrir 78 milljarða íslenskra króna, segir að með þessu ákvæði í lögunum sé verið að fela ráðherra „mikið og opið vald“ um það hvenær hægt sé að binda erlenda fjárfestingu skilyrðum. „Ráðherra getur lagt til hvaða skilyrði sem er,“ segir í umsögn Símans.
Þar segir enn fremur að með samþykkt frumvarpsins myndi ráðherra fá „óheft vald“ hvað þetta varðar og „fullt vald til að svipta viðkomandi aðila eignarréttindi út í hið óendanlega og raunverlega án tillits til þess hvort meint brot gegn óskilgreindum skilyrðum hafi einhverja þýðingu“. Auk þess komi engar bætur fyrir það ef atkvæðaréttur hluthafa yrði lýstur óvirkur, sem þó sé verulegt inngrip í eignarrétt aðila.
„Ráðherra gæti þannig lýst atkvæðisrétt óvirkan en ekki tekið fyrirtækið yfir. Þá er vart hægt að ímynda sér meira inngrip inn í eignarréttinn en að svipta aðila eign sinni,“ segir í umsögn Símans, sem telur að með þessu yrði gengið gegn ákvæðum stjórnarskrár.
Félagið segist sömuleiðis telja „fjarstæðukennt“ að vera með heimild til þess að láta kaup ganga til baka, enda gæti þeirri heimild verið „beitt mörgum árum eftir [að] viðskiptin voru framkvæmd og viðkomandi fyrirtæki var selt“ við gjörólíkar aðstæður.
„Þá er ekki síður ásýnd Íslands gagnvart erlendum fjárfestum varasöm þar sem valdheimildir virðast sem opin tékki til þess að taka yfir fyrirtæki ef þau eru ekki þóknanleg ríkjandi valdhöfum. Það er ósjaldan sem ríkjandi valdhafar nýta sér óljósar heimildir, byggðar á þjóðaröryggi og almannahagsmunum , til þess að koma óþægilegum aðilum frá,“ segir í umsögn Símans.
Síminn gagnrýnir einnig að ekki hafi verið leitað umsagnar hjá víðari hópi íslenskra fyrirtækja hvað þessar breytingar varði, enda snerti skilyrðin um erlenda fjárfestingu öll fyrirtæki landsins, þrátt fyrir að verið sé að ráðast í lagabreytingarnar vegna breytinga á eignarhaldi fjarskiptainnviða.
Á hraðferð í gegnum þingið
Afar skammur tími var gefinn til umsagnar um frumvarpið, en það var lagt fram á þingi 10. desember, tekið til fyrstu umræðu 13. desember og umsagnarbeiðnir sendar út til fyrirtækja sem lagabreytingarnar snerta í síðustu viku. Í umsögn Sýnar segir að tölvupóstur hafi borist frá nefndarsviði Alþingi með ósk um umsögn þann 15. desember og frestur hafi verið gefinn til 17. desember.
Sýn segir því að gera þurfi þann fyrirvara við umsögn fyrirtækisins að ekki hafi gefist ráðrúm til að fara yfir alla anga frumvarpsins – og að félagið setji í raun spurningamerki við hraðann á því að „keyra svo umfangsmikið frumvarp gegnum þinglega meðferð.“
Í umsögn Nova segir sömuleiðis að tíminn sem gefinn hafi verið fyrir félagið til að rýna í frumvarpið og setja fram athugasemdir hafi verið „alltof skammur“.
Í umræðum um frumvarpið á þingi, sem fram fóru að kvöldi dags þann 13. desember, kom einnig fram gagnrýni á þann skamma tíma sem Alþingi var veitt til að fara yfir málið og kallaði Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata hraðann á málsmeðferðinni „ólíðandi framkomu“ ríkisstjórnarinnar við þingið.
Síminn segir í sinni umsögn um málið að það sé „brýnt að hætta við fyrirhugaða lagasetningu“ enda sé „engin brýn þörf á henni“ og að það sé „áríðandi að vinna þau efnisatriði sem eru í frumvarpinu af meiri yfirvegun og með málefnalegum hætti“.