Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni, stendur því enn.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um áframhaldandi sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.
Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í byrjun september er gert ráð fyrir að eftirstandandi 42,5 prósent hlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur fyrir 75,8 milljarða króna. Það er gert þrátt fyrir yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna og að salan hafi verið sett á ís í vor á meðan að Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsökuðu hluta síðasta skrefs sem stigið var í söluferlinu.
Hvorki Ríkisendurskoðun né fjármálaeftirlitið hefur birt neins konar niðurstöðu úr rannsóknum sínum en ríkisendurskoðandi sagði í samtali við Kjarnann í byrjun september að að skrif skýrslunnar væru á lokametrunum. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði í vor töldu 88,4 prósent þjóðarinnar að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað við söluna á Íslandsbanka og 83 prósent þjóðarinnar var óánægð með framkvæmdina.
„Að sinni“
Samkvæmt yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna sem send var 19. apríl kom fram að ef þörf kæmi fram fyrir frekari rannsóknir þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans liggi fyrir muni ríkisstjórnin beita sé fyrir slíku á vettvangi Alþingis.
Í yfirlýsingunni segir: „Ekki verður ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni.“
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu ætlar ríkisstjórnin að selja eftirstandandi 42,5 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næsta ári fyrir 75,8 milljarða króna. Þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvapið 12. september síðastliðinn sagði hann mikilvægt að halda áfram að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka til þess að geta fjárfest í innviðum með þeim peningum í stað þess að taka lán fyrir slíku.
Fyrirvari um frekari sölu í fjárlagafrumvarpinu
Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans, þar sem bent er á ósamræmi í yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna og því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu er bent á að í frumvarpinu er settur fyrirvari við söluna.
Fyrirvarinn sem vísað er í er sá að verði bankinn ekki seldur þurfi að fjármagna með öðrum hætti. Áætlað er að sala eigna muni skila ríkissjóði 75,8 milljörðum króna í tekjur og gangi salan eftir muni skuldir ríkissjóðs ná að vera 33 prósent af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs. Verði ekki af sölu verður skuldahlutfallið umtalsvert hærra og þá þarf að fjármagna hluta af hallarekstri ársins með öðrum hætti, og þá væntanlega lántöku.
Í frumvarpinu segir að salan á Íslandsbanka yrði ekki viðvarandi þáttur í fjármögnun ríkissjóðs og því muni vera nauðsynlegt að halda áfram að bæta undirliggjandi afkomu ríkissjóðs á næstu árum til þess að ná megi markmiðum fjármálastefnu um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af VLF eigi síðar en árið 2026. „Það er forsendan fyrir því að hlutfallið geti farið að lækka aftur í samræmi við fjármálareglur laga um opinber fjármál. Þrátt fyrir neikvætt framlag frumjafnaðar á árinu 2023 þá minnkar það frá árinu áður og hefur í raun lítil áhrif á skuldaþróun á árinu. Athygli vekur hvað framlag vaxtabyrði er stórt. Á meðan svo er þurfa aðrir liðir að bæta það upp ef skuldir eigi að teljast sjálfbærar til lengri tíma. Af þessu má ráða, eins og nefnt var fyrr í þessum kafla, að það er til mikils að vinna að ná niður vaxtabyrði ríkissjóðs.“
Í svari forsætisráðuneytisins er jafnframt bent á þá fyrirvara að í frumvarpinu segir „ef haldið verður áfram sölu hluta í Íslandsbanka“ og að talað sé um mögulega frekari sölu eignarhluta.