Stjórnendur Landspítala ákváðu nýverið að greiða sérstakar álagsgreiðslur til starfsmanna sem sinna COVID-sjúklingum. Mönnun er tæp á smitsjúkdómadeildinni þar sem flestir sjúklinganna liggja. Skýringin felst í því að hjúkrun COVID-sjúklinga krefst mikils mannafla. Tvöfalt fleiri hjúkrunarfræðinga þarf til að sinna hverjum þeirra en almennt gengur og gerist á legudeildum spítalans. Þeir sinna störfum sínum við krefjandi aðstæður, klæddir hlífðarbúnaði löngum stundum enda sjúklingarnir í einangrun.
Álag á starfsfólk hefur því verið mikið og langvarandi en bráðlega verða liðin tvö ár frá því að fyrsti sjúklingurinn með COVID-19 var lagður inn. Borið hefur á uppsögnum starfsmanna síðustu mánuði og veikindi og tilfærslur þeirra á aðrar deildir hafa einnig átt sér stað.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum frá Landspítalanum um fjölda uppsagna á þessari tilteknu deild og fékk þau svör að vegna starfsmannaveltunnar af þeim sökum sem hér að undan voru raktar væri erfitt að festa fingur á nákvæma tölu. Álagið hefði verið afar mikið á starfsfólk deildarinnar.
Sérstakar álagsgreiðslur starfsmanna sem sinna COVID-sjúklingum sem stjórnendur ákváðu nýlega að greiða, geta numið allt að 360 þúsund krónum á mánuði, segir í svari spítalans við fyrirspurn Kjarnans.
Frá 1. júlí hafa 239 sjúklingar þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna COVID-19. 43 hafa þurft á gjörgæslumeðferð að halda.
Tíu eru nú inniliggjandi og eru fjórir á gjörgæsludeild.