Píratar er sá flokkur sem fær hæstu einkunn Ungra umhverfissinna (UU) þegar kemur stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum fyrir komandi kosningar. Fast á hæla Pírata koma Vinstri græn og því næst Viðreisn. Niðurstöður verkefnisins voru kynntar á fundi UU í Norræna húsinu í dag.
Ungir umhverssinnar rýndu í stefnur flokkanna og gáfu þeim svo í kjölfarið einkunn á skalanum 0 upp í 100. Kvarðinn skiptist í þrjá hluta og fást 40 stig að hámarki fyrir áherslur í loftslagsmálum, 30 stig fyrir náttúruvernd og 30 stig fyrir hringrásarsamfélag. Píratar fengu alls 81,2 stig, Vinstri græn fengu 80,3 stig og Viðreisn fékk 76,3 stig.
Þeir flokkar sem næstir koma voru Samfylkingin með 48,8 stig og Sósíalistaflokkur með 37 stig. Framsóknarflokkurinn fékk 13 stig, Sjálfstæðisflokkurinn fékk 5,3 stig og Flokkur fólksins og Miðflokkurinn fengu eitt stig hvorir um sig.
Fyllsta hlutleysis gætt
Á vef UU segir að félagið hafi ráðið þverfaglegt teymi ungra fræðikvenna til verksins sem allar eru í framhaldsnámi í umhverfis- og sjálfbærnifræðum. Í hópnum voru líffræðingur, stjórnmálafræðingur og sálfræðingur. Kvarðinn var unninn út frá tillögum 1200 félaga UU í nánu samstarfi við stjórn félagsins og fjölda óháðra sérfræðinga sem gáfu álit og góð ráð.
„Gætt var að því að hver sá aðili sem að vinnunni kæmi væri ekki með tengsl innan stjórnmálaflokkanna og var fyllsta hlutleysis var gætt við þróun kvarðans sem og við einkunnagjöfina. Nöfn flokka voru afmáð áður en stefna þeirra var metin og gætt að samræmi í einkunnagjöf með því að láta ólíkt matsfólk fara yfir og reikna fylgni milli svara þeirra, þ.e. áreiðanleika matsins,“ segir á vef UU.
Kvarðinn var gefinn út í maí og segir á vef UU að þannig hafi flokkunum gefist svigrúm til þess að bæta stefnur sínar og ungu fólki gefið tækifæri til þess að hafa bein áhrif. Hægt er að skoða kvarðann og hvernig stigagjöfin er reiknuð út á vef verkefnisins.