Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna (VG), segist algjörlega standa með breytingum meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammáætlunar sem birtar voru um helgina. Hún vill ekki láta hjá líða að afgreiða rammaáætlun í einhverri mynd. „Ég held að þá værum við fyrst komin í vanda.“
Þetta kom fram í máli ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði hana meðal annars hvað hefði breyst í viðhorfi VG á síðustu árum í umhverfisvernd. „Með hvaða rökum styðja Vinstri græn færslu Kjalölduveitu og virkjunarkostanna í Héraðsvötnum úr verndarflokki í biðflokk?“ spurði hún meðal annars.
Þórunn sagðist í upphafi fyrirspurnar sinnar fagna því að það hillti undir afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar á Alþingi vonum seinna en það væri ekki sama hvernig það væri gert.
„Sú var tíðin að Vinstrihreyfingin – grænt framboð gaf sig út fyrir að vera flaggskip náttúruverndar hér á landi og tók það hlutverk alvarlega oftast nær. Það urðu hér nokkur tíðindi í liðinni viku þegar VG ákvað að setja nafn sitt við breytingartillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu 3. áfanga rammans úr nefnd, reyndar á þann veg að annar tveggja fulltrúa VG í nefndinni, Bjarni Jónsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis, studdi þá tillögu ekki,“ benti Þórunn á.
Þórunn rifjaði upp orð Katrínar í umræðum um rammann á Alþingi árið 2017 þegar hún sagði að að sjálfsögðu væri margt gott í þeirri áætlun sem lögð var óbreytt fram frá fyrra þingi, þá sérstaklega hvað varðar verndarflokkinn, og kæmi kannski ekki á óvart að hún fagnaði því sérstaklega. „Ég horfi þá til að mynda til Skjálfandafljóts, Skaftár og fleiri þátta, og Norðlingaölduveitu sem hefur talsvert verið til umræðu í þessum sal á undanförnum árum. Og svo auðvitað jökulvötnin í Skagafirði,“ sagði Katrín árið 2017.
Þórunn rifjaði það einnig upp að Katrín hefði verið á þingsályktunartillögu VG um friðlýsingu austari og vestari Jökulsár í Skagafirði árið 2008.
„Eftir að hafa fylgst með pólitík Vinstri grænna í meira en tvo áratugi á ég bágt með að skilja þessi sinnaskipti,“ sagði þingmaðurinn og spurði forsætisráðherra hvað hefði breyst. „Með hvaða rökum styðja Vinstri græn færslu Kjalölduveitu og virkjunarkostanna í Héraðsvötnum úr verndarflokki í biðflokk?“
Búin að ræða málin i sex ár
Katrín svaraði og sagði að sú rammaáætlun sem nú væri lögð fram í fjórða skipti hefði fyrst verið lögð fram árið 2016. „Aldrei hefur umfjöllun verið lokið, meðal annars vegna gagnrýni þeirrar sem hér stendur.“
Hún sagði að Þórunn hefði sleppt því að nefna að ráðherrann hefði bent á að í nýtingarflokki væru kostir eins og Skrokkalda inni á miðju hálendi sem þyrfti augljóslega að skoða betur út frá hugmyndum um mögulegan miðhálendisþjóðgarð og út frá þeirri landslagsheild sem þar væri að finna og ósnortnum víðernum.
„Þar ræddi ég líka, í þessum ræðum, af því að ég man þær nú ágætlega, um virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þá staðreynd að samfélagsleg áhrif af þeim virkjunum hefðu ekki verið metin með fullnægjandi hætti. Og hver er tillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessum efnum? Jú, það er að færa nákvæmlega þessa kosti í biðflokk af því að þá þurfi að meta betur.
Vissulega er líka verið að leggja til færslu á kostum úr verndarflokki í bið. En verðum við ekki einfaldlega að horfast í augu við það, Alþingi, að við höfum ekki náð saman um þennan áfanga rammaáætlunar í þau þrjú skipti sem hann hefur verið lagður fram? Verðum við ekki að taka það til opinskárrar umræðu að líklega eru þetta of margir kostir til að geta tekið afstöðu til þeirra í einu ef marka má þessa sögu, sem ég tek alvarlega? Þetta eru sex ár sem við höfum verið að ræða þetta mál og þetta þarf ekki að koma jafn mikið á óvart og einhverjir háttvirtir þingmenn telja í ljósi þess að í stjórnarsáttmála er sérstaklega talað um að eðlilegt sé að horfa til þess að biðflokkur verði stækkaður þannig að þetta sé gert í minni áföngum,“ sagði Katrín í svari sínu.
Hún benti á að Þórunn hefði nefnt í fyrirspurn sinni Skaftá og Skjálfandafljót sem eru í verndarflokki. „Og af því að háttvirtur þingmaður spyr um Vinstrihreyfinguna – grænt framboð þá held ég að það sé ágætt að rifja það upp að ýmis svæði eru ekki undir í þessari áætlun, til dæmis ekki þau tíu svæði sem voru friðlýst á tíma Vinstri grænna í umhverfisráðuneytinu, sem eru auðvitað líka mikil tímamót í þessari umræðu,“ sagði hún.
Öllu snúið á haus
Þórunn sagðist í framhaldinu ekki deila við forsætisráðherra um þau atriði sem hún nefndi í sinni ræðu.
„Það er öllu snúið á haus þegar kemur að varúðarreglunni og færslu á kostum úr vernd í bið – úr vernd í bið. Það vill þannig til að við erum að tala um kosti sem hafa eitthvert hæsta verndargildi samkvæmt mati faghópa sem unnið hafa fyrir verkefnisstjórnina og þeir eru í verndarflokki vegna náttúruverndarhagsmuna. Það er ekki í samræmi við varúðarregluna að taka kosti úr vernd í bið,“ sagði hún og bætti því við að þetta gengi hreinlega ekki upp.
„Það hljóta því að vera einhverjar aðrar ástæður þar að baki. Það hljóta þá að vera einhverjar aðrar ástæður þar að baki af því það eru ekki náttúruverndarástæðurnar sem eru þar að baki.“ Hún spurði því ráðherrann hvernig stæði á því að VG stæði að þeirri ákvörðun að færa Héraðsvötn og Kjalölduveituna úr vernd í bið.
Hefur haft áhyggjur af því að ekki hafi verið unnt að ljúka afgreiðslu rammaáætlunarinnar
Katrín svaraði í annað sinn og sagðist telja að rammaáætlun væri mjög mikilvægt tæki. „Ég hef satt að segja haft af því þungar áhyggjur að fylgjast með þeirri þróun sem hér hefur verið undanfarin sex ár, að ekki hafi verið unnt að ljúka afgreiðslu rammaáætlunar. Ég tek mark á því eftir að hafa hlustað á samþingmenn mína úr öllum flokkum sem ræða það að hér þurfi einfaldlega að horfa til minni áfanga og undir það er tekið í nefndaráliti meirihlutans.“
Hún sagðist jafnframt vera viss um að Þórunn væri henni sammála af því að auðvitað þyrfti að vega það og meta hvað væri athugavert við það þegar þingið væri fjórum sinnum búið að leggja rammaáætlun fram og ekki náð að klára málið.
„Ég vil minna á, þegar við erum að ræða að Alþingi hafi hér síðasta orðið, að það var algerlega meðvituð ákvörðun þegar lögin um rammaáætlun voru samþykkt á sínum tíma að Alþingi skyldi hafa síðasta orðið, að rammaáætlun kæmi einmitt ekki fram frá verkefnisstjórn og yrði afgreidd óbreytt. Það var alveg sérstaklega rætt, eins og háttvirtur þingmaður þekkir, hvort það ætti að vera reglan og það var tekin algerlega meðvituð ákvörðun um að svo yrði ekki.
Þannig að ég stend algerlega með þessu. Fyrir þessu eru færð ákveðin rök í áliti meirihlutans og ég held að við værum í verulegum vanda stödd, herra forseti, ef við ætluðum enn og aftur að leggja fram þennan áfanga rammaáætlunar og láta hjá líða að afgreiða hann í einhverri mynd. Ég held að þá værum við fyrst komin í vanda, herra forseti,“ sagði hún að lokum.