Jared Bibler, fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins, segist standa að fullu við fullyrðingar sínar þess efnis að Seðlabankinn hafi verið misnotaður á fyrstu misserunum eftir hrun, er íslenskir aðilar urðu sér úti um erlendan gjaldeyri með því að framvísa tilhæfulausum reikningum hjá viðskiptabönkunum.
Þetta segir hann í yfirlýsingu vegna fréttar Kjarnans um svör Seðlabankans um þetta efni, sem birtist á mánudaginn. Í svörum Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans sagði að það væri „langsótt“ að tala um misnotkun á Seðlabankanum hvað þetta varðar og áhersla var lögð á að úttektir á gjaldeyri hefðu farið fram í viðskiptum við viðskiptabankana, en ekki í beinum viðskiptum við Seðlabankann.
Í yfirlýsingu sinni segir Jared að svör Seðlabankans sem Kjarninn sagði frá beri með sér ýmist viljandi útúrsnúninga eða umhugsunarvert skilningsleysi á alþjóðlegri greiðslumiðlun.
Svik sem settu þrýsting á gengi krónunnar
Hann tekur dæmi af viðskiptum þar sem íslenskur aðili notar tilhæfulausan reikning fyrir til þess að senda 50.000 sterlingspund til ráðgjafafyrirtækis í Bretlandi á tímum gjaldeyrishafta. Jared segir að slík viðskipti hefðu sett þrýsting á gengi íslensku krónunnar, sem Seðlabankinn hafi brugðist við með því að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn og selja brot af gjaldeyrisvaraforða sínum fyrir íslenskar krónur.
Í kjölfarið á þessu hafi gjaldeyrisvaraforði Íslands minnkað og svikahrappurinn sem seldi krónur til að kaupa pund fengið mun meira af pundum fyrir krónurnar en honum hefði getað látið sig dreyma um að fá á hinum óformlega markaði með krónur sem hafði myndast í Evrópu.
„Staðhæfing mín er sú að reikningasvik á árunum 2008-2010 hafi leitt til skerðingar á gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, og þar með þeirri upphæð í skiptanlegum gjaldmiðlum (e. hard currency) sem Íslendingar gátu nýtt sér. Ég stend við orð mín við Kjarnann og þær staðhæfingar mínar í Iceland’s Secret að erlendum gjaldeyri Seðlabankans hafi verið stolið með þessum svikum – og að fórnarlömbin hafi verið íslenskur almenningur,“ skrifar Jared.
Hann segir peninga hafa flætt frá Íslandi með þessum hætti, óháð því hvaða banki hafi annast viðskiptin, en að Seðlabankinn hafi á endanum átt að bera endanlega ábyrgð.
„Sú staðreynd að Seðlabankinn hafi útvistað eftirliti með svikum til viðskiptabankanna og ekki varið gjaldeyrisvaraforða sinn með fullnægjandi hætti á meðan að gjaldeyrishöft voru við lýði ætti að vera áhyggjuefni,“ segir í yfirlýsingu Jareds.
Seðlabankinn sagði í svörum sínum til Kjarnans að tekið hefði verið á brotum af þessu tagi á sínum tíma og að þau hefðu verið tekin alvarlega – enda hefðu þau grafið undan markmiðum bankans um að koma á stöðugleika og takast á við vandann sem skapast hafði vegna efnahagsáfallsins sem hér reið yfir árið 2008.