Noregur, þar sem olía er unnin, vindurinn beislaður og árnar sömuleiðis, stendur frammi fyrir töluverðum vanda sem tengist hinni umtöluðu orkukrísu í Evrópu. Verðið á kílóvattstund af rafmagni kostar nú 6,4 norskar krónur, um 93 íslenskar syðst í landinu sem þýðir að ein sturta, eitt gott steypibað, getur kostað um 1.000 íslenskar krónur. Það er álíka mikið og stök sundferð kostar í laugarnar í Reykjavík.
En af hverju eru Norðmenn, þjóðin sem vinnur meiri orku en flest öll ríki veraldar, í vanda?
Í grein sem birt var á vef norska ríkisútvarpsins í dag er bent á að á tímabilinu 24. júlí til 24. ágúst kostaði kílóvattstund (kWst) af rafmagni á meginlandi Evrópu að meðaltali 50 íslenskar krónur. Á sama tímabili var meðalverðið í Noregi 25,5 krónur. Þannig greiddu Norðmenn að meðaltali helmingi minna fyrir kílóvattstundina en íbúar innan ESB í sumar. Hins vegar er rafmagn syðst í Noregi miklu dýrara.
Mikill munur er á rafmagnskostnaði nyrst í Noregi og syðst. Í sumar var verðið á kílóvattstundina t.d. 278 sinnum dýrara í Kristiansand en í Tromsø. Síðustu daga hefur hins vegar orkuverðið syðst hækkað gríðarlega og nálgast hæstu verð sem greidd eru í Evrópu. Ítalía trónir þó enn á toppnum í þessum efnum.
Í samantekt NRK er hins vegar bent á að Norðmenn greiði hlutfallslega mun minna af tekjum sínum í rafmagn en flestallir Evrópubúar. En af því að rafmagn er ódýrt nota Norðmenn gríðarlega mikið af því, meira en flestir. Í fyrra var notkunin að meðaltali 23 þúsund kílóvattstundir á hvern íbúa. Meðaltalið á meginlandi Evrópu var á sama tíma um 6.000 kWst.
Ein helsta ástæða þess að orkukrísa hefur skapast í Noregi er sú að uppistöðulón vatnsaflsvirkjana standa enn hálf tóm eftir sumarið. Langstærstur hluti rafmagns er framleiddur í slíkum virkjunum. Þurrkatíð hefur geisað þótt ekki sé enn öll nótt úti í því sambandi – votviðrasamt haust gæti bjargað miklu.
En þetta er ekki eina skýringin.
Því er þannig fyrir komið í Noregi að syðsti hluti raforkukerfisins er tengdur við meginland Evrópu. Það þýðir að framleiðendur rafmagns geta selt rafmagnið til hæstbjóðanda.
Þurrkar og stríðið í Úkraínu hafa gert það að verkum að verð á jarðgasi, vatnsorku og kjarnorku – orkugjöfum sem samanlagt eru notaðir til að framleiða meira en 50 prósent af allri raforku í Evrópu – hafa hækkað í verði. Orkuverð er því í sögulegum hæðum í álfunni og Noregur verður einnig fyrir áhrifum af framangreindum ástæðum.