„Sú ákvörðun stjórnar HB Granda á síðasta aðalfundi að hækka stjórnarlaun fyrirtækisins um 33% kemur eins og blaut tuska framan í starfsmenn fyrirtækisins og launafólk í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir þar sem Samtök atvinnulífsins hafa boðið launafólki tíunda hluta þessa fjárhæðar í launahækkun,“ segir í ályktun frá stjórn stéttarfélagsins Eflingar.
Í tilkynningunni segir að ákvörðun aðalfundar HB Granda lýsi „bæði taktleysi og siðleysi gagnvart fólkinu á gólfinu sem hefur byggt upp HB Granda með vinnu sinni og aukinni framleiðslu ár eftir ár.“ Er ákvörðunin sögð vera algjörlega „óboðleg“.
Efling fordæmir einnig ákvörðun stjórnar HB Granda fyrir þær arðgreiðslur sem fyrirtækið hefur ákveðið að færa eigendum sínum á síðasta aðalfundi fyrirtækisins. „Í stað þess að fyrirtækið deili ávinningnum af uppbyggingu og arðsemi af rekstri með starfsmönnum sínum, hafa eigendur ákveðið að taka allan arðinn sem deilt er út í eigin vasa,“ segir í tilkynningu Eflingar.
Ennfremur segir að með þessari ákvörðun hafi stjórn HB Granda sett alla framvindu kjarasamningaviðræðna í uppnám. „Efling-stéttarfélag krefst þess að stjórn HB Granda verði þegar í stað kölluð saman til að afturkalla þessar ákvarðanir og taka nýjar sem taka mið af hagsmunum starfsmanna fyrirtækisins og þörfum samfélagsins sem búum í,“ segir í tilkynningunni.
Aðalfundur HB Granda ákvað fyrir skemmstu að hækka laun stjórnarmanna hjá félaginu um 33,3 prósent. Stjórnarmenn í félaginu fá nú 200 þúsund krónur greiddar á mánuði í stað 150 þúsund króna og stjórnarformaðurinn tvöfalda þá upphæð. HB Grandi greiddi hluthöfum sínum 2,7 milljarða króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs.
Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd en Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, sagði í samtali við RÚV í gær að ekki komi til greina að draga ákvörðun um aðgreiðslu og þriðjungshækkun á þóknun stjórnarmanna til baka. „Ég held að það sé ekkert óhóf í þessu að mínu mati, og ef þú færir yfir listann í þessu í Kauphöllinni þá held ég að Grandi sé í einu af neðstu sætunum,“ sagði Kristján.
Deilur í algleymingi
Kjaradeilur á vinnumarkaði eru í algleymingi um þessar mundir. Félagsmenn BHM eru í verkfallsaðgerðum, og við blasa verkfallsaðgerðir hjá verkalýðshreyfingunni. Starfsgreinasambandið (SGS) er með þær í undirbúningi, og það sama má segja um fleiri stéttarfélög. Kröfurnar sem uppi eru, og hafa verið nefndar, eru órafjarri þeim sem Samtök atvinnulífsins telja sig geta mætt.
Eins og Kjarninn hefur bent á áður þá er rík krafa um það hjá verkalýðshreyfingunni að lægstu laun verði hækkuð myndarlega, og hafa samningar ríkisins við lækna, þar sem samið var um meira en 20 prósent hækkun launa, haft mikil áhrif á kröfugerð stéttarfélaga og andann í samningaviðræðunum yfir höfuð. Þetta staðfesta viðmælendur beggja megin borðsins. Hjá SGS hefur krafan verið sú að lægstu laun verði hækkuð í 300 þúsund en þau eru 214 þúsund í dag. Hækkunin á að koma fram á þremur árum, en meðal mánaðarlaun þessa hóps hafa verið sögð meira en 400 þúsund krónur þegar allt er talið.
Flóabandalagið hefur sett fram kröfur um 35 þúsund króna hækkun lægstu byrjunarlauna. Auk þess sem þau verði leiðrétt miðað við hækkanir hjá öðrum umfram forsendur síðustu kjarasamninga. Formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins, Sigurður Bessason, hefur látið hafa eftir sér að Flóabandalagið geri kröfu um þessa hækkun á einu ári, einfaldlega vegna þess að þau treysti ekki stjórnvöldum og því sé ekki hægt að semja til lengri tíma. Þegar allt er talið telja Samtök atvinnulífsinss að kröfur Flóabandalagsins feli í sér 17,5-22% hækkun launataxta, og þeim sé ekki hægt að mæta.
Hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur (VR) er uppi krafa um 50 þúsund króna launaþróunartryggingu. Það þýðir um 20% hækkun þeirra sem lægstu laun hafa. Samkvæmt heimildum Kjarnans er horft til þess að semja til tólf mánaða. Samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir áhyggjum, sem snúa því að krónutöluhækkanir taxta, sem samið yrði um, fari upp allan launaskalann, og þannig geti þeir sem hæstu launin hafa í reynd fengið meiri krónutöluhækkun en aðrir. Þessu hafa forsvarmenn VR hafnað, og tala fyrir nauðsyn þess að hækka launin hjá þeim sem minnst hafa. Einblína á þann hóp, enda séu félagsmenn VR upp til hópa ekki hluti af hálaunastéttum í landinu.
Iðnaðarmenn og stéttarfélög þeirra hafa gert almenna kröfu um tuttugu prósent launhækkun. Þar af um um 100 þúsund króna hækkun lægstu taxta. Kröfur hafa verið uppi um enn meiri hækkanir hjá Matvís, félagi iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum, sem eru með lægri taxta en hinir hópar iðnaðarmanna eins og mál standa nú. Líkt og hjá hjá Flóabandalaginu og VR, hefur verið horft til þess að semja aðeins til tólf mánaða.